Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í dag tilkynning um mann sem gekk milli fyrirtækja í Garðabæ og greip í hurðarhúna snemma í morgun. Þetta segir í dagbók lögreglu. Þar segir að maðurinn hafi ekki fundist eftir leit.
Um er að ræða annað skipti á stuttum tíma sem maður sést taka í hurðarhúna í Garðabæ en í byrjun mánaðar náðist myndskeið af slíku atviki við heimili í Flatahverfi.
Sá maður var með hníf í hendi og huldi hann andlit sitt líkt og hann vissi að verið væri að taka hann upp. Ekki er vitað hvort um er að ræða sama mann.