„Bara í íþróttaskóm og joggingbuxum í hvassviðri“

Sumir eru betur búnir en aðrir í Landmannalaugum. Guðmundur ítrekar …
Sumir eru betur búnir en aðrir í Landmannalaugum. Guðmundur ítrekar þörfina á að klæða sig vel og huga að veðri. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Björnsson, landvörður í Landmannalaugum, segir marga ferðamenn sem hafa sótt Landmannalaugar og Laugaveginn ekki nægilega vel útbúna fyrir gönguna. Þá segist hann ekki hafa tölu á því hve margir bílar hafi eyðilagst við för yfir ána Námskvísl.

„Við höfum ekki verið að koma að fólk á nærfötunum en við komum að einhverjum um daginn sem var bara í íþróttaskóm og joggingbuxum í hvassviðri.“

Þá segir hann að það hafi komið nokkrum sinnum fyrir að ferðamenn hafi þurft á aðstoð að halda til að klára gönguna. 

„Það er ekkert einsdæmi að það þurfi að aðstoða ferðamenn á Laugaveginum, hálendisvaktin sinnir því aðallega,“ segir Guðmundur og bætir því við að landverðir þurfi stundum að grípa inn í eins og nýlega, þegar þeir komu að ferðamanni á göngu sem var blautur í gegn, hrakinn, kaldur og „ómögulegur“. 

Erlendir ferðamenn í háska en ekki Íslendingar

Aðspurður segir Guðmundur það helst vera erlenda ferðamenn sem lent hafi í hrakningum á hálendinu undanfarið.

„Þetta eru aðallega erlendir ferðamenn sem gera sér ekki grein fyrir því hvernig veður getur verið hérna og hversu óútreiknanlegt það getur verið.“

Hann segir að ástæðan geti mögulega verið sú að ferðamenn forðist kannski að skoða veðurspár, vegna þess hve dýrt það er að vera á netinu fyrir þá hér á landi. 

„Stundum vantar líka upp á það að ferðamenn komi og leiti sér upplýsinga. Þeir eru kannski feimnir að spjalla við okkur eða aðra Íslendinga sem geta gefið þeim ráð.“

Margir bílar orðið ánni að bráð

Guðmundur bætir við að fjöldi bíla hafi orðið ánni Námskvísl að bráð við akstur til Landmannalauga. Hann segir það oftast vera erlenda ferðamenn á bak við stýrið þegar svo ber undir en það heyri til undantekninga að Íslendingar fari sér að voða í ánni.

„Það þurfti að hjálpa fólki hérna fyrir skömmu sem var búið að drekkja tveimur bílum úti í á og þau spurðu okkur af hverju það hefðu ekki verið neinar viðvaranir. Þá var gul veðurviðvörun og veðrið var ógeðslegt út um allt.“

Hann segist ekki hafa tölu á því hve margir bílar hafi eyðilagst við för yfir ána. Spurður hvers vegna svo mörg slys verða segir hann flesta sem fara sér að voða ekki kunna nægilega vel að keyra yfir ár. 

„Þau vita ekki að það eigi að keyra rólega út í og hægt í vaðinu. Fólk kemur með þá hugmynd að það sé best að bruna út í. Það eru kannski bílaauglýsingar sem hafa haft þau áhrif.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert