EFTA-dómstóllinn veitti í dag ráðgefandi álit í máli móður gegn ríkissjóði Íslands, er varðar ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að taka ekki tillit til tekna sem hún aflaði í Danmörku, við útreikning á fjárhæð fæðingarorlofsgreiðslna.
Héraðsdómur Reykjavíkur spurði hvort taka bæri tillit til tekna sem aflað væri í öðrum EES-ríkjum við útreikning fæðingarorlofsgreiðslna með hliðsjón af 6. gr. og 3. mgr. 21. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins um samræmingu almannatryggingakerfa, en samkvæmt íslenskum lögum ber að reikna út slíkar greiðslur eingöngu á grundvelli tekna sem aflað hefur verið á innlendum vinnumarkaði.
EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fjárhæð bóta sem veittar eru farandlaunþega sem aðeins aflaði tekna í öðru EES-ríki á því tímabili sem miðað er við samkvæmt landslögum, beri að miða við tekjur launþega með sambærilega starfsreynslu og menntun og sem gegnir svipuðu starfi í því EES-ríki þar sem sótt er um bætur.
EFTA-dómstólinn benti á að samkvæmt 2. og 3. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar væri útreikningur bóta tengdur við tekjur greiddar á innlendum vinnumarkaði. Beri viðkomandi stjórnvaldi því ekki skylda til að reikna út fjárhæð bóta á grundvelli tekna sem aflað er í öðru EES-ríki.
Aftur á móti taldi dómstóllinn að 21. gr. yrði að túlka í ljósi 29. gr. EES-samningsins, sem kveður á um að launþegi megi ekki missa rétt sinn til almannatryggingabóta eða að fjárhæð slíkra bóta skerðist vegna þess að hann hafi nýtt sér rétt sinn til frjálsrar farar. Það samrýmdist því ekki ákvæði reglugerðarinnar að miða við engar tekjur vegna starfstímabils í öðru EES-ríki.