Guðgeir Einarsson og Ragna Lind Ríkarðsdóttir eru búsett á Egilsstöðum og eiga von á sínu fyrsta barni í ágúst. Í ljósi þess að meðgangan er flokkuð sem áhættumeðganga fá þau ekki að eiga barnið á umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupsstað.
„Um miðjan júní sagði ljósmóðirin okkur að við yrðum að fara til Reykjavíkur eða Akureyrar að eignast barnið, því það er enginn fæðingarlæknir til staðar á Neskaupsstað,“ segir Guðgeir í samtali við mbl.is.
Akureyri er tæplega þriggja klukkustunda akstursfjarlægð og það tekur tæpar átta klukkustundir að keyra til Reykjavíkur. Þau þurfa að vera mætt í umdæmið tveimur vikum fyrir settan dag auk þess sem þau þurfa að gera ráð fyrir að Ragna gangi viku fram yfir.
„Svona löng ferðalög verða enn erfiðari og þyngri þegar þú ert gengin 38 vikur á leið, þá getur verið vont að sitja svona lengi í bíl.“
Því ákváðu Guðgeir og Ragna að þau skildu eignast barnið á Akureyri. Strax í júní byrjuðu þau að leita að húsnæði á Akureyri þar sem þau gætu dvalið þessar vikur í kringum fæðinguna.
„Við byrjuðum að skoða hvort það væru einhverjar sjúkraíbúðir lausar, en sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði vegna þeirra. Þær voru uppbókaðar. Svo skoðuðum við stéttarfélagsíbúðir hjá báðum stéttarfélögunum okkar, foreldrum okkar og systkinum. Þetta voru fimm eða sex félög en allt var uppbókað.“
Það var verulega kvíðavaldandi, að sögn Guðgeirs, að vita ekki hvar þau myndu sofa í aðdraganda og eftir fæðinguna, mánuði fyrir settan dag.
Vinafólk foreldra Guðgeirs bauðst að lokum til að hýsa þau meðan þau þyrftu að dveljast á Akureyri. Guðgeir og Ragna eru þeim, ævinlega þakklát. „Það er ofboðslega gott að vera komin með húsnæði.“
Engu að síður bendir Guðgeir á að það sé erfitt að fá ekki að vera heima hjá sér, hafa ekki fólkið sitt í kringum sig og fá ekki að eiga barnið í sínu bæjarfélagi.
Á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Austurlands stendur: „Við bjóðum allar hraustar konur sem eiga að baki eðlilega meðgöngu velkomnar til fæðingar hjá okkur. “ Þar starfa níu ljósmæður en enginn fæðingarlæknir.
Meðganga Rögnu er flokkuð sem áhættumeðganga vegna þess að BMI-stuðullinn hennar var talinn of hár, að sögn Guðgeirs. Honum þykir sérstakt að miðað sé við þennan stuðul.
„Þessi stuðull setur til að mynda menn í góðu standi sem eru duglegir að lyfta, í flokk offitusjúklinga. Ég hefði haldið að kerfið væri komið lengra en að miða bara við kíló og hæð.“
Guðgeir vill sjá þingmenn fjórðungsins grípa í taumana þegar kemur að heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.
„Mér þætti eðlilegt að það væru fæðingarlæknar á fjórðungssjúkrahúsi. Við erum ekki eina parið á Austurlandi sem þarf að fara annað til að eignast barn. Ég hef heyrt að það sé gott að ala upp börn hérna, en afhverju að ala upp börn þar sem þú getur ekki eignast börn?“
Guðgeir leggur þó áherslu á að ljósmæðurnar og allt starfsfólk á HSA hafi unnið sitt starf vel, en vandinn felist í úrræðaleysi.