Tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi urðu tvöfalt fleiri eftir að lögreglan breytti aðferðafræði sinni hvað varðar nálgun heimilisofbeldis árið 2015.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, föstudag.
Lögreglan telur að hægt sé að ná enn betri árangri og vonar að einn daginn verði jafn sjálfsagt að tilkynna heimilisofbeldi og það er að tilkynna um innbrot.
Líkt og Morgunblaðið greindi frá í síðustu viku hefur aðferðafræðin vakið athygli erlendis en Svíar íhuga nú að taka hana upp. Þá munu fulltrúar frá Grikklandi koma til landsins í ágúst til að kynna sér íslenska módelið.
„Meginbreytingin er að það er lögð áhersla á að rannsaka sem mest í útkallinu, á vettvangi. Nú er sem flestum gögnum safnað, tekinn niður vitnisburður og unnið með sveitarfélögunum, en það kemur fulltrúi frá félagsþjónustu með í útkallið ef brotaþoli samþykkir og alltaf þegar barn er með lögheimili á vettvangi kemur fulltrúi frá barnavernd. Þú ert kominn með þessa þverfaglegu samvinnu en líka þessa áherslu á það að þegar glugginn er opinn þá er reynt að fara eins langt og hægt er með málið,“ segir Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri vegna aðgerða gegn ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra, í samtali við Morgunblaðið.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er nú rætt við 83% gerenda og 67% þolenda á vettvangi. Að sögn Eyglóar eru ástæður þess að ekki sé rætt við alla á vettvangi meðal annars vegna þess að fólk yfirgefi svæðið eða vilji ekki tala við lögregluna. Lögreglan fylgi þó öllum málum eftir.
Í þolendakönnun lögreglu kemur fram að 8% þolenda tilkynntu um heimilisofbeldi sem þeir urðu fyrir árið 2017 en 21% árið 2020.
„Við sjáum það í þolendakönnunum að þegar kemur að heimilisofbeldi og kynferðisbrotum, þá er hlutfall þeirra sem tilkynna til lögreglu lægra en í öðrum afbrotum,“ segir Eygló.
Hún segir það ekki séríslenskt vandamál að færri tilkynni ofbeldisbrot en verði fyrir þeim, það sé vandamál í öllum heiminum. Áfram þurfi að byggja upp aukið traust á kerfinu.
„Það er alveg skýrt markmið stjórnvalda að annars vegar að fækka brotum, sem sagt draga úr líkum að brotið sé á fólki, og hins vegar að fjölga tilkynningum til lögreglu. Við viljum hafa sem fæst brot en helst að sem flestir tilkynni til lögreglu.“