Gul viðvörun í upphafi verslunarmannahelgar

Hér má sjá hvar gul viðvörun verður í gildi í …
Hér má sjá hvar gul viðvörun verður í gildi í nótt og á morgun. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Landsmenn hafa margir hverjir orðið fyrir verulegum vonbrigðum með veðurhorfurnar víða um land fyrir verslunarmannahelgina sem hefur að jafnaði verið ein stærsta útileguhelgi ársins.

Það bætir því gráu ofan á svart að Veðurstofa Íslands hefur nú gefið út gula viðvörun sem verður að öllu óbreyttu í gildi í kvöld og fram eftir morgundeginum á Austurlandi og á miðhálendinu.

Viðvörunin tekur gildi klukkan 22 í kvöld á Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum og varir fram á hádegi á laugardag, en þar er varað við slyddu eða snjókomu til fjalla með takmörkuðu eða lélegu skyggni.

Þá má búast við versnandi akstursskilyrðum og hálku á fjallvegum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og fylgjast með veðurspám. 

Samgöngutruflanir líklegar

Þá er jafnframt varað við norðvestan átt 10-20 m/s á Austfjörðum þar sem búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll eða allt að 25 m/s, sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

Afmarkaðar samgöngutruflanir þykja líklegar. Fólk er hvatt til að ganga frá lausum munum.

Á miðhálendinu verður gul viðvörun jafnframt í gildi frá 22 í kvöld til hádegis á morgun en þar er spáð slyddu eða snjókomu norðan Vatnajökuls og til fjalla á Austurlandi. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og fylgjast með veðurspám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert