Lögreglan hafði hendur í hári manns sem hafði óvelkominn komið sér fyrir í herbergi á gistiheimili í miðbænum í nótt. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Starfsmaður á gistiheimilinu óskaði þá eftir aðstoð lögreglu eftir að hafa orðið var við að maður væri búinn að koma sér fyrir í herbergi án leyfis hlutaðeigandi aðila. Þegar lögreglan kom á staðinn var maðurinn handtekinn fyrir húsbrot og gisti í fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar málsins.
Hann er einnig grunaður um eignaspjöll og vörslu ávana- og fíkniefna.
Ökumaður var stöðvaður í hverfi 203 í Kópavogi í nótt grunaður um akstur undir áhrifum ávana- fíkniefna.
Að því sem fram kemur í dagbók lögreglu var ökumaðurinn ósamvinnuþýður. Veittist hann þá að einum lögreglumanni á vettvangi.
Ökumaðurinn var í kjölfarið handtekinn og vistaður í fangageymslu.