Gjaldskrárliðir Samgöngustofu hækka almennt um fimm prósent þegar ágústmánuður gengur í garð en þá tekur ný verðskrá stofnunarinnar gildi. Athygli vekur að númeraplötur meira en tvöfaldast í verði, fara úr 2.665 krónum í 6.300 hver númeraplata og nemur hækkunin því 136%.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, föstudag.
Ástæða þeirrar hækkunar er annars vegar leiðrétting á skattheimtum sem var áður í gjaldskrá Samgöngustofu 1.500 krónur en verður 3.000 krónur, hins vegar hækkar framleiðslugjald úr 1.165 krónum í 3.300 krónur. Þá hækkar tímagjald um 14,6%.
Hækkunin var tilkynnt í gær, einungis þremur dögum áður en hún tekur gildi. Verðskráin var síðast uppfærð árið 2020.
Flokkun á gjaldskrárliðum hefur verið endurskoðuð og skiptast þeir nú í fjóra flokka: Almenna skilmála, flug, umferð og siglingar og er það gert til auðveldunar fyrir hagaðila til að nálgast upplýsingar sem leitast er eftir. Síðast var gjaldskránni breytt í september árið 2020.