Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir það mjög óvenjulegt að það snjói á þessum árstíma, eins og mun líklegast gerast á hálendinu og norðan við Vatnajökul í dag samkvæmt veðurspám.
Búist er við snjókomu á hálendinu norðan Vatnajökuls vegna lægðar sem fer austanlands í dag og dýpkar fyrir austan og norðaustan að sögn Einars.
„Með lægðinni rignir og jafnvel snjóar á öðrum stöðum,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Á Möðrudalsöræfum seint á sunnudag og um nóttina er einnig hætt við krapa og snjó.
Spurður hvort svona snjókoma sé ekki óvenjuleg á þessum tíma svarar Einar því játandi.
„Þetta er ekkert óalgengt snemma sumars eða þegar liðið er á sumarið, en ég verð nú að segja að þetta er frekar óvenjulegt yfir hásumarið.“
Hann bendir þó á að landverðir og skálaverðir á hálendinu myndu aðspurðir segja fólki að gera ráð fyrir öllu veðri alltaf.
Í lokin tekur Einar fram að það þyrfti að fara þó nokkur ár aftur í tímann til að finna svipaða snjókomu á þessum tíma árs.
Fyrr í dag fór hann yfir veðrið um þessa verslunarmannahelgi.