Áfengissala fer hægar af stað í ár á landinu öllu en síðustu þrjár verslunarmannahelgar, bæði í lítrum talið og fjölda viðskiptavina, samkvæmt tölfræði frá ÁTVR.
Á höfuðborgarsvæðinu var salan í fyrra nánast nákvæmlega sú sama og árið 2019, en bæði árin seldust um 233 þúsund lítrar frá mánudegi til fimmtudags þar sem fjöldi viðskiptavina voru um 44 þúsund.
Í ár hefur salan á höfuðborgarsvæðinu aftur á móti dvínað og er salan ekki nema um 216 þúsund lítrar og viðskiptavinir um 41 þúsund talsins.
Vestmannaeyjar hafa aftur á móti aðra sögu að segja, en þar var salan um 25 þúsund lítrar árið 2019 þegar þjóðhátíð var haldin síðast en 9.307 lítrar í fyrra, þegar þjóðhátíð var aflýst sökum faraldursins.
Nú hefur salan aftur á móti tekið kipp að nýju, ólíkt höfuðborgarsvæðinu, en í vikunni seldust 26 þúsund lítrar í Vestmannaeyjum, um þúsund lítrum fleiri en árið 2019. Þá var fjöldi viðskiptavina einnig hærri í ár en árið 2019 úti í Eyjum.
Salan frá mánudegi til fimmtudags var svipuð árin sem faraldurinn setti strik í reikninginn, árin 2020 og 2021. Fyrir tveimur árum seldust um það bil 418 þúsund lítrar fyrri hluta vikunnar og í fyrra 415 þúsund lítrar.
Árið 2019 var töluvert meiri sala fyrri hluta vikunnar á landinu öllu en árin sem fylgdu á eftir. Samt sem áður var áfengissala í vikunni allri meiri en árið 2019 og munaði þar töluvert meira í lítrum en fjölda viðskiptavina.