Fjölskylda Johns Snorra kom saman á blaðamannafundi í Pakistan í dag til að ræða við fjölmiðla þar í landi.
Eins og mbl.is greindi frá lagði fjölskyldan af stað til Pakistan í vikunni í þeim tilgangi að ljúka leiðangri Johns að klifra fyrstur manna upp K2 fjallið að vetrarlagi, þar sem hann lést í febrúar á síðasta ári.
Á fundinum fór Lína Móey, ekkja John Snorra, með yfirlýsingu fyrir hönd fjölskyldunnar. Yfirlýsingin hófst á því að hún þakkaði fyrir góðar móttökur í Pakistan.
Síðan minntist hún á vináttu John og Ali Sadpara, sem lést í sömu ferð. Að mati fjölskyldunnar var vináttan djúpstæð og einlæg.
Vegna þess hafi henni fundist hún skuldbundin til að ferðast til Pakistan, til að þakka þeim sem hafa stutt hana á þessum erfiðu tímum og til að heimsækja þann hluta Pakistan sem John elskaði.
„Við komum hingað í þeirri von að vera viðstödd ef möguleiki væri á því að færa John frá slóðinni á K2 og leggja hann til hvílu nálægt vini hans og göngufélaga Ali, og sömuleiðis göngufélaga þeirra beggja, Juan Pablo,“ segir í yfirlýsingunni þeirra en ekki hefur tekist að færa lík John Snorra.
Eftir því sem fram kemur í yfirlýsingunni misheppnuðust tilraunir til að færa John Snorra aftur í dag. Þá fór fjögurra manna lið, leitt af Mingma G., að toppi K2 og reyndi að færa hann í tvær klukkustundir án árangurs. Þá var mikill snjór í hlíðinni sem skapaði hættu á snjóflóði. Þau segja að þær upplýsingar muni hjálpa þeim að meta hvað skuli gera næst.
Vegna staðsetningar Johns er mikil snjóflóðahætta fólgin í því að færa hann. Það gæti stefnt öllum 150 fjallgöngumönnunum sem reyna nú að klífa fjallið í mikla hættu.
Fjölskyldan ítrekar mikilvægi þess að John verði aðeins færður ef það telst öruggt.
„Ég trúi því og veit það í hjarta mínu að John og Ali hafi náð upp á topp á K2 í febrúar 2021. John hafði mitt skilyrðislausa samþykki og stuðning fyrir því að elta draum sinn úr barnæsku, að komast á topp K2 bæði að sumri til og vetri til,“ sagði Líney og bætti við að þau hafi alltaf haft þá sameiginlegu trú að skapa líf sem væri þess virði að lifa.
Í lok yfirlýsingarinnar þakkaði Líney fyrir þann stuðning og hlýju sem fjölskyldan hefur fundið fyrir frá svo mörgum. Síðan taldi hún upp stjórnvöld í Pakistan, herforingja Pakistan, utanríkisráðuneyti Pakistan, og fleiri aðila í Pakistan.
„Við viljum þakka herforingjum á staðnum og flugmönnum í Skardu sem leiddu leitina af John og sérstaklega Sajid Sadpara, Elia Saiklay og PK Sherpa sem voru með John og Ali síðustu dagana á fjallinu og hafa gengið í gegnum svo margt ásamt fjölskyldunni.“
Þá tók hún fram að Pakistan myndi ávallt verða í hjarta hennar og barna þeirra og að þau ætli sér að snúa aftur til Pakistan innan nokkurra ára þegar börnin eru orðin eldri og ganga saman upp að grunnbúðum K2.