„Þórólfur hefur um tíu mínútur“

Eyjamenn kappkosta nú við að undirbúa Herjólfsdal fyrir komandi hátíðarhöld.
Eyjamenn kappkosta nú við að undirbúa Herjólfsdal fyrir komandi hátíðarhöld. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Þjóðhátíð var sett í dag með pompi og prakt. Talsvert fleiri sóttu setningarathöfnina en þá sem var haldin árið 2021 en hún fór fram fyrir tómum dal.

mbl.is sló á þráðinn til Harðar Orra Grettissonar, formanns þjóðhátíðarnefndar, um tíu mínútum fyrir athöfnina sem haldin var klukkan 14.30 í dag.

Spurður hvort það geti eitthvað komið í veg fyrir Þjóðhátíð í ár eins og síðustu tvö ár segir Hörður kíminn: „Þórólfur hefur þá um tíu mínútur til að gera það.“

Víðir með ræðu eftir skrýtinn tíma

Vísaði Hörður í samtalinu til þess að Þjóðhátíð hafi ekki farið fram síðustu tvö sumur vegna kórónuveirufaraldursins. 

Að sögn Harðar fór Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, með hátíðarræðu á setningarathöfninni. 

„Þetta verður í takt við undanfarin ár. Víðir er Eyjamaður mikill og mun flytja hátíðarræðu þessarar Þjóðhátíðar, sem er viðeigandi eftir þennan skrýtna tíma sem hefur verið hérna,“ segir Hörður.

Frá setningarathöfn Þjóðhátíðar árið 2021 en í ár var talsvert …
Frá setningarathöfn Þjóðhátíðar árið 2021 en í ár var talsvert fleira fólk viðstatt. mbl.is/Ómar Garðarsson

Gott veður og margmenni

Hann kvaðst vera að búa sig undir setningarathöfnina og að hann væri spenntur fyrir hátíðarhöldunum.

„Það er góður gangur á þessu öllu, frábært veður og fullt af fólki mætt og á leiðinni. Ég held að þetta verði ekki mikið betra,“ sagði Hörður fullur af eftirvæntingu fyrir helginni.

Hann segir þá að líklegast verði um fjórtán til fimmtán þúsund manns í Herjólfsdal þegar mest lætur en bendir á að það komist ekki mikið fleiri til Eyja með Herjólfi yfir helgina. 

Veðrið sé í besta lagi og að eins og standi sé hitinn í fimmtán gráðum og heiðskírt. Smá vindur verði kannski um helgina en vindáttin sé mjög hagstæð og ætti því að vera logn í dalnum.

„Þegar maður keyrir um bæinn í dag eru allir bara léttklæddir og á stuttermabolnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert