Vísa forsíðufrétt Fréttablaðsins á bug

Utanríkisráðuneytið.
Utanríkisráðuneytið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Utanríkisráðuneytið segir engin áform vera uppi um uppbyggingu varnarmannvirkja í Finnafirði. Þá sé engin undirbúningsvinna hafin. Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag um slík áform sé því röng.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Atlants­hafs­banda­lagið, NATO, hef­ði farið fram á heim­ild til þess að byggja viðlegukant á Langa­nesi.

„Engin áform eða hugmyndir eru uppi um uppbyggingu varnarmannvirkja á því svæði sem þar er til umfjöllunar. Enn síður á sér stað undirbúningsvinna eins og haldið er fram í fréttinni,“ segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Þá kemur fram að engar beiðnir, hvorki formlegar né óformlegar, hafi verið lagðar fram af hálfu ráðuneytisins „og staðhæfingar um beiðni Atlantshafsbandalagsins eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Fréttin er því röng“.

Hefði verið einfalt að svara fyrirspurnum

Í tilkynningunni segir einnig að Fréttablaðið hafi ekki gengið mjög langt til að fá svör frá ráðuneytinu en tekið var fram í fréttinni að ekki hefðu fengist svör frá ráðuneytinu við fyrirspurnum blaðsins.

„Blaðamaður hafði samband við fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins sem er í sumarfríi erlendis og var vísað á staðgengil. Blaðamaður hafði ekki samband við staðgengil eða neinn hjá ráðuneytinu til þess að leita staðfestingar á þeim röngu upplýsingum sem hann byggði skrif sín á.“

Kemur fram að þetta sé miður, því einfalt hefði verið að koma á framfæri upplýsingum og svara fyrirspurnum um málið.

Íslensk stjórnvöld hafi lokaorðið

Jafnframt segir að á grundvelli varnaráætlana leggi Atlantshafsbandalagið mat á þörf fyrir uppbyggingu varnarmannvirkja í bandalagsríkjum.

Það sé ákvörðun stjórnvalda bandalagsríkja hvers um sig hvort slík varnarmannvirki séu byggð og á Íslandi hafi því íslensk stjórnvöld lokaorð um varnartengda uppbyggingu. Þá eigi samráð um uppbyggingu slíkra mannvirkja sér ávallt staði á vettvangi bandalagsins.

Sveitarfélagið Langanesbyggð sagðist einnig í tilkynningu fyrr í dag ekki hafa borist nein erindi um uppbyggingu hafnarmannvirkja í Finnafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert