Um 1.600 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá því að jarðskjálftahrina hófst skömmu eftir hádegi í dag.
Um klukkan korter í eitt í dag varð skjálfti upp á þrjá að stærð og hófst með því hrina sem enn stendur yfir. Fyrr um daginn hafði verið skjálftavirkni á svæðinu en hún var minniháttar.
391 skjálfti á milli 1 og 2 að stærð, 142 skjálftar á milli 2 og 3 að stærð og 34 skjálftar yfir 3 að stærð. Sá stærsti klukkan 16.52, 4,4 að stærð og tveir til viðbótar sem mældust stærri en 4.
Klukkan þrjú í dag var tilkynnt um óvissustig almannavarna vegna skjálftahrinunnar sem talin er stafa af kvikuhlaupi.
„Hægst hefur á jarðskjálftavirkninni. Það þarf ekki að vera merki um neitt, þetta getur alveg tekið sig upp aftur án mikils fyrirvara. Við bíðum og sjáum,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Áfram verður hægt að fylgjast með beinu streymi í vefmyndavélum mbl.is af gosstöðvunum í Fagradalsfjalli.