Meirihluti borgarráðs frestaði í vikunni tillögu þess efnis að beina umferð einkaþotna og þyrluflugi annað en um Reykjavíkurflugvöll.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, lagði fram tillöguna.
Alexandra Briem, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, sagði þó í samtali við Rúv að það skyti skökku við að lítið kosti að leggja einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli.
Lagði Líf til að fela borgarstjóra að ganga til samninga við samgönguyfirvöld um að beina umferð á einkaþotum og þyrluflugi annað en um Reykjavíkurflugvöll. Slíkar breytingar myndu hafa margs konar jákvæð áhrif á borgina, íbúa hennar og umhverfið.
„Hljóð- og lofmengun og almennt ónæði yrði minna, öryggi íbúa í miðborginni og í grennd við flugvöllinn myndi aukast og svo samræmist aðgerðin markmiðum borgarinnar í umhverfis- og loftlagsmálum svo fátt eitt sé nefnt,“ segir í tillögunni.