Gordon Ramsay gæddi sér á veitingum í Þrastalundi

Gordon Ramsay er að veiða í Soginu á Suðurlandi.
Gordon Ramsay er að veiða í Soginu á Suðurlandi. mbl.is/Instagram

Stjörnukokkurinn og þáttastjórnandinn Gordon Ramsay er búinn að koma tvisvar í heimsókn í Þrastalund, bæði til þess að snæða og til þess að fá sér kaffi. 

Þetta staðfestir Dagný Sif Jónsdóttir, eigandi staðarins. Hún hafði vitað að hann væri á leiðinni því hún þekkir til leigutakanna að Soginu, þar sem Gordon Ramsay er að veiða um þessar mundir. 

Ekki eins og í þáttunum

„Ég er búin að ná að spjalla mikið við hann og hann er mjög almennilegur og ýtir manni ekkert frá sér heldur er mjög til í að tala við mann.“

Frægðarsól Ramsay reis hæst með þáttunum Hell's Kitchen á sínum tíma, þar sem hann þótti nokkuð harðbrjósta þegar kom að því að dæma keppendur. 

„Hann er alls ekki eins og maður sér hann í þáttunum, það er bara karakter sem hann setur upp.“

Gordon Ramsay er þekktur fyrir að vera nokkuð harðbrjósta í …
Gordon Ramsay er þekktur fyrir að vera nokkuð harðbrjósta í þáttunum sínum.

Heiður að vera í kringum hann

Dagný segir Ramsay hafa hrósað Þrastalundi hástert fyrir góða þjónustu. „Það er þvílíkur heiður að fá að hitta hann og vera í kringum hann.“

Ramsay og félagar fá næði öðru megin í salnum þegar þeir koma í Þrastarlund, en Dagný segir Ramsay engu að síður mannblendinn. 

Hún vonast til þess að fá hann aftur í heimsókn áður en hann snýr heim úr veiðiferð sinni, til þess að kveðja hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert