Grindvíkingar orðnir öllu vanir

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Hákon

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, segir að bæjarbúar séu orðnir öllu vanir er kemur að skjálftahrinum líkt og þeirri sem hófst á hádegi í dag á Reykjanesskaganum. 

Er mbl.is náði tali af Fannari var hann staddur á Suðurlandinu svo hann hafði ekki fundið skjálftana sjálfur en hefur fylgst vel með og verið í sambandi við viðbragðsaðila. 

Hann segir að svæðið sé vel vaktað af jarðvísindamönnum sem sjái um að leggja mat á aðstæður eins og hægt er. 

Einungis er rúmur einn og hálfur mánuður síðan óvissustigi var aflýst vegna jarðskjálftahrinu sem hófst um miðjan maí. 

Fannar minnist einnig á hrinu sem var um síðustu jól og áramót og að þessi skjálftahrina sé ekki minni. Margir skjálftar hafa mælst yfir 3 á stærð frá því að hrinan hófst í dag. 

„Fólk er margvísari um þessi málefni og reynslumeiri, en það er sama, það er þörf á því að vakta þetta vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert