Skammhlaup varð í rafmagnstöflu sem olli því að rýma þurfti húsnæði Skógarbaðanna á Akureyri rétt eftir hádegi.
Þetta staðfestir lögreglan á Akureyri. Tilkynning um reyk barst lögreglu klukkan 12:35 í dag en starfsfólk brást vel við með því að koma öllum gestum út úr húsnæðinu hratt og örugglega.
Slökkviliðið bar svo að og lauk við að reykræsta húsið á tæpum 20 mínútum.
Gestum sem komnir voru ofan í böðin sjálf, var engin hætta búin og þurftu þeir því ekki að yfirgefa svæðið meðan á reykræstingu stóð.
Reykurinn var mestur í starfsmannarými og eldhúsi og honum fylgdi talsverð lykt. Ekki varð tjón á öðru en rafmagnstöflunni sjálfri.