Urður Egilsdóttir
„Það er áfram skjálftavirkni og við erum aðallega að fylgjast með dýptinni núna á skjálftunum. Við erum að reyna að meta hvort að skjálftavirknin er að grynnast,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is, um skjálftavirknina á Reykjanesskaga.
Klukkan 16:33 varð jarðskjálfti sem fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Hann mældist 3,1 að stærð og var á 2,3 kílómetra dýpi.
Gera má ráð fyrir að skjálftavirknin haldi áfram næsta sólarhringinn eða sólarhringana.
Einar segir að ef komi skjálftahlé verði fylgst með vefmyndavélum til að sjá hvort merki sé um að gos sé að hefjast.
„Það er ekki komið að þeim tímapunkti ennþá.“
Hann segir að einnig sé fylgst vel með mælingum á óróapúlsi en hann er talinn til marks um áhlaup kviku undir yfirborðinu sem ekki hafi þó náð alla leið upp á yfirborðið.
„Þetta var mjög kröftug virkni um hádegisbil er skjálftavirknin hófst. Þegar það verður svona samfelld skjálftavirkni þá verður óróapúls út úr því,“ segir Einar og bætir við að það hafi verið ástæða þess að Veðurstofan lýsti yfir óvissustigi í Krýsuvík vegna flugumferðar, en mesta skjálftavirknin er norðaustan við Fagradalsfjall.