Læknar hlutfallslega fáir

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Áberandi munur var á fjölda lækna sem sinntu sjúklingum, miðað við höfðatölu, milli EES-ríkjanna árið 2020. Ísland skipar þriðja neðsta sætið á lista sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur birt um stöðuna. Fregnirnar koma formanni Læknafélags Íslands ekki á óvart.

„Þessar tölur koma mér ekki á óvart miðað við tilfinningu okkar hjá Læknafélaginu. Hún er sú að læknar á Íslandi séu undir gríðarlegu álagi. Það kom okkur hins vegar á óvart þegar við ferðuðumst um landið og hittum lækna utan höfuðborgarsvæðisins, hvað það var mikið álag þar líka. Staðan á Landspítalanum og á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er vel þekkt. Vitað er að hjá heilsugæslunni eru alltof margir einstaklingar hjá hverjum heimilislækni. Þeir sinna allt að tvöfalt fleiri sjúklingum en gæti talist eðlilegt. Það er augljós skortur á læknum,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands.

Útskrifa þarf fleiri læknanema

Læknafélagið hvetur til þess að spálíkan verði gert um væntanlega þörf á læknum á næstu árum og áratugum. „Við þurfum að geta gert okkur grein fyrir því hve marga þarf að útskrifa. Eins þarf að leggja mat á það hvort við séum tilbúin að treysta á erlenda háskóla til að útskrifa stóran hluta af okkar læknum, eins og verið hefur undanfarin ár,“ segir Steinunn.

Hún bætir við að ásamt því að fjölga útskriftarnemum, þurfi að fá íslenska lækna, sem búsettir eru erlendis, heim.

Nánar um málið á bls. 4 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert