Mikið var um ölvun og óspektir á höfuðborgarsvæðinu í nótt og gistu samtals 7 í fangageymslu lögreglu.
Kemur fram í dagbók lögreglu að kona hafi verið í annarlegu ástandi í miðbænum og kastaði hún öli yfir dyraverði. Þegar lögregla ræddi við hana missti hún stjórn á skapi sínu og reyndi ítrekað að sparka og bíta lögreglumennina.
Þá var tilkynnt um að ölvuðum manni væri haldið af dyravörðum í miðbænum og hann handtekinn vegna líkamsárásar og vistaður í fangageymslu.
Lögreglu barst einnig tilkynning um hópslagsmál 6-7 einstaklinga á skemmtistað í hverfi 111. Þegar lögregla mætti á vettvang var allt orðið rólegt.
Húseigendur í Mosfellsbæ sem staddir voru erlendis töldu sig hafa séð aðila í gegnum öryggismyndavél heimilisins en þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að öryggismyndavélin hafði dottið af festingu og enginn í húsinu.