Takk fyrir vaktina!

Ágúst Ingi Jónsson byrjaði sem íþróttablaðamaður, varð svo fréttastjóri og …
Ágúst Ingi Jónsson byrjaði sem íþróttablaðamaður, varð svo fréttastjóri og síðan fulltrúi ritstjóra með áherslu á skrif um sjávarútvegsmál. mbl.is/Árni Sæberg

„Á Mogganum er ég búinn að velkjast í fréttum af ýmsum toga í röska fimm áratugi. Ég sé fréttir hvar sem ég fer um og iðulega dreymir mig fréttaverkefni, en nú finnst mér rétt að stíga til hliðar,“ segir Ágúst Ingi Jónsson, fulltrúi ritstjóra og blaðamaður á Morgunblaðinu. Hann er 71 árs og hóf störf á Morgunblaðinu að loknu stúdentsprófi 1. júlí 1972 eða fyrir röskum 50 árum. En hvers vegna valdi hann blaðamennsku?

„Tilviljun réð því eins og svo mörgu öðru. Því er ekki að neita að áhugi á íslenskri tungu, fréttum og fólki leiddi mig inn á þessa braut. Ég velti því alls ekki fyrir mér þá að ég ætti eftir að vera á Mogganum í hálfa öld, en svona æxlaðist þetta. Ég hef unnið með þúsundum einstaklinga á öllum deildum Morgunblaðsins og þá eru fréttaritarar um allt land meðtaldir,“ segir Ágúst Ingi.

Ágúst Ingi hóf blaðamennskuferilinn sem íþróttafréttamaður en hélt til Noregs og nam við norska blaðamannaháskólann veturinn 1974-1975. Hann sneri aftur á Morgunblaðið en flutti sig af íþróttadeildinni og í innlendar fréttir 1977. Ágúst Ingi var ráðinn fréttastjóri 1. janúar 1984 og gegndi því starfi til 2008 eða í 24 ár. Einnig var hann aðstoðarfréttaritstjóri frá 2001-2008 og fulltrúi ritstjóra frá 2008 með áherslu á skrif um sjávarútveg og jafnframt vaktstjóri til 2016.

Ágúst Ingi Jónsson fréttastjóri á vakt árið 1995 meðan Morgunblaðið …
Ágúst Ingi Jónsson fréttastjóri á vakt árið 1995 meðan Morgunblaðið var í Kringlunni.

Gengið í gegnum byltingar

Ágúst Ingi hefur orðið vitni að hverri byltingunni á fætur annarri í útgáfu Morgunblaðsins og fréttamiðlun.

„Þegar ég var að byrja var skrifað á ritvél og setjarar settu textann í blý. Svo leysti offsetið blýið af hólmi, framleiðslukerfin urðu fullkomnari og tölvurnar tóku völdin. Myndir stækkuðu og allt í einu var ekkert mál að hafa þær í lit! Prentvélar urðu stærri og afkastameiri. Við fluttum úr Aðalstræti í Kringluna og þaðan í Hádegismóa,“ segir Ágúst Ingi.

Hann telur að ef til vill finnist sumum ferilskráin ekki merkileg, því algengt er að fólk skipti oft um starf á lífsleiðinni.

„Þetta hefur hins vegar hentað mér og mér finnst ég hafa verið heppinn. Ég er stoltur af þessum árum á Morgunblaðinu, sem hefur verið hálft mitt líf. Vinnustaðurinn hefur verið kröfuharður, en um leið skilningsríkur. Þegar horft er um öxl er það samferðafólkið innan blaðs og utan sem upp úr stendur. Innanborðs hefur oft verið valinn maður í hverju rúmi blaðamanna og ljósmyndara og margir minnisstæðir landsliðsmenn í þeim hóp. Listinn er langur og ég hvorki þori né vil nefna nöfn úr þessum samhenta hópi,“ segir Ágúst Ingi.

Ágúst Ingi og Sigtryggur Sigtryggsson voru samtímis fréttastjórar í aldarfjórðung. …
Ágúst Ingi og Sigtryggur Sigtryggsson voru samtímis fréttastjórar í aldarfjórðung. Samanlagður blaðamennskuferill þeirra spannar 102 ár. mbl.is/Árni Sæberg

Prentvélin stöðvuð!

Iðulega gerðust stórir atburðir sem kröfðust tafarlausrar umfjöllunar eftir að blaðið var farið í prentun. Þá voru engir vefmiðlar sem gátu sagt fréttir umsvifalaust. Prentvélin var stundum stöðvuð og byrjað að dreifa hluta upplagsins meðan nýrra upplýsinga var aflað. Svo voru fréttasíður rifnar upp og nýjustu fréttir settar inn, áður en haldið var áfram að prenta. Þetta mátti ekki taka langan tíma, því til einskis var barist ef áskrifendur fengu ekki blaðið sitt með morgunkaffinu.

Það hafa ekki bara verið sorgir í fréttunum, heldur líka sigrar, afrek og miklar gleðistundir. Hátíðahöld heillar þjóðar, heimsóknir kóngafólks, páfa og annarra höfðingja, en einnig hrun og heimsfaraldur. Svo höfum við okkar daglega þref og þras og hverdaginn með sínum átökum og litlu og stóru sögum. Þannig verða annálar til og á slíku þrífst góður sögumaður. Morgunblaðið hefur ræktað allar hliðar góðrar fréttamennsku og verið stór hluti af lífi þjóðarinnar,“ segir Ágúst Ingi.

En hvað tekur nú við?

„Ekki er ólíklegt að ég haldi áfram að setja niður þætti í sögu Víkings á komandi árum og kannski fæ ég mér gróðurhús í garðinn. Glíman við forgjöfina og félagana í golfinu er strembin og henni þarf ég að sinna betur. Sömuleiðis eru gönguferðir með vinahópi gefandi og starfið í Rótarýklúbbnum Borgum. Aðalatriði er að ég á yndislega fjölskyldu og góða vini, sem ég er þakklátur fyrir.

Að leiðarlokum finnst mér rétt að nota orð sem gjarnan eru sögð í lok vinnudags á Mogganum, stundum um miðnætti þegar fólk heldur heim á leið: Takk fyrir vaktina!“

Ítarlegra viðtal við Ágúst Inga má lesa á blaðsíðu 14 og 16 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert