Á tjaldsvæðinu í Hallormsstaðaskógi eru ekki margir, að sögn Bergrúnar Örnu Þorsteinsdóttur tjaldstæðisvarðar, en þó fleiri en hún hafði búist við í ljósi veðurspárinnar.
„Skógurinn gefur mikið skjól svo vindurinn hefur ekki áhrif en það er búið að vera skýjað og napurt. Það var gott veður í byrjun vikunnar og þá voru líka fleiri á tjaldsvæðinu.“
Tjaldsvæðið í Þrastalundi er troðið að sögn Sverris Einars Eiríkssonar tjaldstæðisvarðar.
„Það mættu mjög margir í gær og við eigum von á talsverðum fjölda.“
Sverrir segir að í gær hafi verið „smá suddi“ í veðri, en góð stemmning í mannsskapnum. Það hafi nokkrir hópar verið að spila kubb frameftir kvöldi.
Ásmundur Smári Ragnarsson er tjaldstæðisvörður á tjaldsvæðinu í Vaglaskógi. Þar er, að hans sögn, slatti af fólki þrátt fyrir leiðinlegt veður.
„Það bættust margir við í gær og flestir ætla að vera hér fram á mánudag.“
Á tjaldsvæðinu á Flateyri er óvenju rólegt þessa helgi að sögn tjaldstæðisvarðar, sem bendir á að flestir séu á þjóðhátíð.