Tæplega 700 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaganum síðan á miðnætti. Flestir voru þeir á svæðinu norðaustan Fagradalsfjalls þar sem jarðskjálftahrina hófst um hádegi í gær. Alls eru skjálftarnir því orðnir 2500 frá því í gær.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Skjálftavirkni róaðist töluvert eftir kl. 19 í gærkvöldi og var stöðug þar til um kl. 3.15 í nótt þegar hún tók aftur kipp í rúman klukkutíma og róaðist svo aftur.
Þá var stærsti skjálfti næturinnar kl. 04.06, 4,2 að stærð, og var hann staðsettur rétt utan við Litla Hrút.
Stærstu skjálftar hrinunnar í gær voru 4,4 og 4,3 að stærð. Annar þeirra var kl. 16.52 og hinn kl. 20.48.
Klukkan þrjú í gær var tilkynnt um óvissustig almannavarna vegna skjálftahrinunnar.
„Engin merki gosóróa hafa sést á mælum Veðurstofunnar né nokkur önnur merki um að eldgos sé hafið eða yfirvofandi eins og er,“ kemur jafnframt fram í tilkynningu Veðurstofunnar.
Áfram verður hægt að fylgjast með beinu streymi í vefmyndavélum mbl.is af gosstöðvunum í Fagradalsfjalli.