Fjögurra til fimm bíla árekstur varð við Esjurætur í Kollafirði laust eftir klukkan eitt. Sextán einstaklingar lentu í árekstrinum og voru þrír fluttir með sjúkrabíl af vettvangi með minniháttar áverka, að sögn Bjarna Ingimarssonar slökkviliðsmanns.
Slysið varð til þess að umferð stíflaðist í báðar áttir. Bílarnir hafa ekki enn verið fjarlægðir af götunni svo lögregla er á staðnum að stýra umferð.
Mikil bílaröð hefur myndast beggja vegna og fyrirséð er að það muni taka nokkurn tíma að greiða úr umferðinni.
Slökkviliðið sendi á staðinn tvo dælubíla og þrjá sjúkrabíla. Allir sjúkrabílarnir voru nýttir.