„Það opnuðust allar skúffur og skápar og matvæli hrundu niður á gólf. Styttur duttu niður og brotnuðu og myndarammar. Þannig að þetta var nokkuð mikið,“ segir Laufey Fjóla Hermannsdóttir, íbúi í Grindavík, í samtali við mbl.is um stóra jarðskjálftann sem reið yfir suðvesturhorn landsins seinni partinn í dag.
„Við héldum hreinlega að það myndu brotna rúðurnar í húsinu en það gerðist sem betur fer ekki,“ segir Laufey enn frekar.
Laufey fór í matvöruverslunina Nettó skömmu eftir jarðskjálftann og tók myndir sem fylgja fréttinni. Hún segir að vörur hafi hrunið úr flestum hillum verslunarinnar.
Laufey segir að stóri skjálftinn í dag hafi verið allt öðruvísi en sá stóri áður en tók að gjósa í Geldingadölum í fyrra. „Það var meira högg þá en það titraði allt í lengri tíma núna. Þessi virkaði töluvert stærri,“ segir hún og bætir við að henni hafi þótt hann vera nær.
Spurð hvaða ráðstafanir hún og fjölskylda hennar þurfi að gera á heimilinu segir hún að allt sem hrunið getur í kringum rúm verði fest.
Þá er fjölskylda Laufeyjar með gamlan hund sem er mjög órólegur. Jörð hefur skolfið nánast linnulaust í einn og hálfan sólarhring og fjöldi skjálfta yfir þrír að stærð. „Við finnum þetta mjög mikið. Síðustu nótt skalf stanslaust alla nóttina. Ég var ekki sofnuð fyrr en klukkan sex í morgun,“ segir Laufey.
Laufey segir jarðskjálftana sjálfa ekki vera versta, heldur tilhugsunina um hvað gæti komið í kjölfarið – yfirvofandi hætta á eldgosi nærri bænum. Hún segir að hún og fjölskylda sín sé ávallt tilbúin með pakkað í tösku ef þau skyldu þurfa að rýma heimili sitt með stuttum fyrirvara. „Við höfum líka komið myndaalbúmum okkar til Reykjavíkur.“