Lífið er eitt stórt maraþon

Hilmar, Kristófer, Logi, Oddný og Kári eru samheldin fjölskylda. Hilmar …
Hilmar, Kristófer, Logi, Oddný og Kári eru samheldin fjölskylda. Hilmar hyggst hlaupa 10 kílómetra til styrktar sumarbúðunum í Reykjadal, en sonur hans Kristófer er fatlaður.

Eftir þrjár vikur þarf Hilmar Gunnarsson að reima á sig nýju hlaupaskóna og skokka með þúsundum annarra hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, sem fer fram þann 20. ágúst. Hilmar hljóp síðast fyrir áratug, þá fyrir Einstök börn. Nú safnar hann fyrir Reykjadal, þar sem fötluð börn og ungmenni njóta lífsins, sumar eftir sumar, í sumarbúðum. Frumburður Hilmars, Kristófer, er einn af þeim krökkum.

Fjör á bænum

„Kristófer er ellefu ára, fæddist 6. febrúar 2011. Hann er með litningagalla sem nefnist Ring 18 og er sá eini á Íslandi sem er með heilkennið. Hann talar ekki og er mikið þroskaskertur,“ segir Hilmar og segir að það hafi fljótlega komið í ljós að Kristófer væri ekki eins og önnur börn.

„Þetta var áfall til að byrja með. Það breyttist allt á einni nóttu. En svo tekur maður þessu sem verkefni sem okkur hefur verið úthlutað og við ætlum að gera okkar besta í því. Það fá allir einhver verkefni í lífinu og þetta er okkar,“ segir hann og nefnir að framtíðin sé og verði alltaf óskrifað blað.

„Hann hefur síðan eignast tvo bræður sem eru nú sjö og þriggja ára og eru því mjög ólíkar þarfir hjá þeim. Þetta er auðvitað mikil vinna. Ætli Kristófer sé ekki í dag með þroska á við eins árs barn. Hinir bræðurnir voru fljótir að taka fram úr honum. Það er oft fjör á bænum.“

Allt sem hann elskar

„Þegar hann var lítill, var hann mjög óvær og náði ekki að una sér vel. Í dag er ástandið betra. Þegar honum líður vel, þá líður öllum vel í kringum hann. Hann þarf alveg manninn á sig og það er krefjandi að vera með þá alla þrjá saman. Hann elskar að fara í sund og göngutúra og finnst gaman að fara út í búð,“ segir hann.

„Hann er svo hrifinn af matvörubúðum og IKEA. Við reyndum einu sinni að fara með hann til útlanda en það endaði á því við foreldrarnir skiptust á að vera með honum í matvörubúð á meðan hitt var á ströndinni með hinum í fjölskyldunni,“ segir hann og hlær.

Hilmar og Kristófer njóta sín best í heita pottinum. Kristófer …
Hilmar og Kristófer njóta sín best í heita pottinum. Kristófer fæddist með sjaldgæfan litningagalla og er þroskaskertur.

„Hann er kominn inn í sumarbúðirnar í Reykjadal, nú annað sumarið í röð, en hann var lengi á biðlista. Honum finnst mjög gaman þar. Það virðist öllum líða vel í Reykjadal, enda frábært starf sem þar er unnið,“ segir hann.

„Hann skríkir oft af gleði í Reykjadal. Þar er sundlaug og trampólín og allt sem hann elskar.“

Keypti hlaupaskó í gær

Ertu mikill hlaupari?

„Nei, bara alls ekki! Ég hljóp fyrir tíu árum tíu kílómetra og safnaði alveg helling,“ segir Hilmar, en þá var Kristófer rúmlega eins árs.

„Ég held að það sé fínt að taka þetta á tíu ára fresti,“ segir hann og hlær.

„Ég varð fertugur í sumar og vildi gjarnan láta gott af mér leiða. Því afþakkaði ég gjafir og bað fólk frekar að heita á mig. Ég endaði á að halda afmælið í Reykjadal í Mosfellsdal, enda mikill Mosfellingur. Ég hélt þar heljarinnar partí og hóf söfnunina formlega,“ segir hann en þess má geta að nú þegar hefur Hilmar safnað 871,500 krónum og er sem stendur sá hlaupari sem safnað hefur mestu.

„Það er kominn góður skriður á þetta,“ segir Hilmar og segist nú þurfa að fara að hreyfa sig.

„Ég keypti mér hlaupaskó í gær og þarf eiginlega að fara að æfa mig. Ég er ekki í neinu hlaupaformi en ég stefni allavega að því að skila mér í mark,“ segir hann.

„Ég ætla að komast yfir milljón og kem færandi hendi í Reykjadal síðsumars,“ segir hann og nefnir að hann og kona hans taki einn dag í einu og að allt sé gott á meðan að öllum líði vel. Kristófer er umvafinn yndislegu fólki alla daga og svo á hann líka bestu mömmu sem hugsast getur.

Kristófer veit fátt skemmtilegra en að leika sér í sumarbúðunum …
Kristófer veit fátt skemmtilegra en að leika sér í sumarbúðunum í Reykjadal.

„Lífið er eitt stórt maraþon og þótt ég hlaupi núna tíu kílómetra heldur maraþonið áfram.“

Á hlaupastyrkur.is má styrkja Hilmar og aðra hlaupara sem hlaupa til góðs.

Ítarlegra viðtal er við Hilmar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert