Pabbi kenndi okkur allt um hesta

Systurnar Bjarney, Birna og Eygló hafa orðið fyrir miklum áföllum …
Systurnar Bjarney, Birna og Eygló hafa orðið fyrir miklum áföllum á unga aldri. Þær eru duglegar systur og vita fátt skemmtilegra en að vera í kringum hesta. mbl.is/Ásdís

Að sjálfsögðu völdu systurnar þrjár að hitta blaðamann í hesthúsi sínu í Víðidalnum. Eygló er elst, á átjánda ári, og er hún sú sem oftast hefur orðið. Bjarney er miðjan, alveg að verða fimmtán og yngst er Birna, nýorðin þrettán ára. Allar eru þær á kafi í hestamennsku og segjast eiga með móður sinni, Málfríði Hildi Bjarnadóttur, sextán eða sautján hesta. Hestamennskan er þeim í blóð borin og var faðir þeirra, Ásgeir Rafn Reynisson, þekktur hestamaður. Hann féll fyrir eigin hendi fyrir tveimur árum og hafa systurnar þurft að læra að lifa án hans. 

Höfum lært að lifa með þessu

Við sitjum í lítilli kaffistofu sem ilmar af hestalykt. Spjallið hefst á hestamennskunni sem þær hafa alist upp með frá blautu barnsbeini. Segjast þær aldrei hafa hræðst hesta og hlæja dátt þegar blaðamaður segist skíthræddur við þau fallegu dýr.

„Pabbi var mikið í hestum og var að rækta. Hann dó 30. júlí 2020. Við tölum alveg um það og erum frekar opnar með það, en hann tók sitt eigið líf. Hann var með geðhvörf, en hann greindist með þunglyndi í nóvember 2019. Hann fékk röng lyf, því það var ekki vitað að hann væri með geðhvörf, og þá fór hann í maníu,“ segir Eygló. Hún segir hann hafa fengið greiningu allt of seint. Eygló nefnir að þær hafi fundið fyrir mikilli einangrun í veikindum pabba síns, ólíkt því þegar móðir þeirra greindist með krabbamein.

Hvernig pabbi var hann?

„Hann var ótrúlega góður maður,“ segir Eygló og systur hennar taka undir það.

„Hann sagði á hverjum degi hvað hann elskaði okkur mikið. Hann var hlýr og góður. Hann kenndi okkur allt um hesta. Við eigum góðar minningar með honum í hesthúsinu,“ segir Eygló og segir það að vonum hafa verið gífurlegt áfall að missa hann.

„Þetta var erfiður kafli og er enn oft erfitt. Við höfum þurft að læra að lifa með þessu. Það er stundum erfitt að tala um hann,“ segir Eygló og segir þær allar hafa fengið hjálp hjá sálfræðingum.

Birna, Bjarney og Eygló riðu oft út með pabba sínum …
Birna, Bjarney og Eygló riðu oft út með pabba sínum Ásgeiri, sem lést fyrir tveimur árum.

Hvað er eftirminnilegast af því sem pabbi ykkar hefur kennt ykkur?

Birna minnist þess strax sem pabbi hennar kenndi henni í hestamennskunni.

„Hann kenndi mér að horfa á fótaburðinn af baki,“ segir hún og brosir.

„Pabbi kenndi mér svo margt, hann var mjög mikill húmoristi,“ segir Bjarney.

„Þú fékkst alla vega húmorinn frá honum, þú ert mjög fyndin,“ segir Eygló við systur sína, Bjarneyju.

„Ég held ég hafi lært af honum að vera alltaf góð við alla. Hann var svo góður og hjálpaði öllum,“ segir Eygló.

Mamma er dugleg og sterk

Móðir þeirra, Málfríður, greindist með krabbamein aðeins hálfu ári eftir lát Ásgeirs.

„Það var í janúar 2021 og var það mikið áfall. Þetta er mergæxli. Hún hefur verið í meðferð og það gengur mjög vel núna en þetta var mjög erfitt tímabil fyrst þegar hún var í meðferð og þurfti að fara í háskammta- og stofnfrumumeðferð,“ segir Eygló.

„Hún þarf núna alltaf að vera á lyfjum,“ segir hún.

„Þau halda krabbameininu niðri,“ segir Bjarney.

„Hún er ennþá frekar slöpp en áður en hún greindist þurfti hún að fara í aðgerð á lærbeini og hefur lítið farið á hestbak síðan,“ segir Eygló.

Stelpurnar segja það hafa verið erfitt að fá þær fréttir að móðir þeirra væri með krabbamein.

„Mér fannst það leiðinlegt og þetta var svolítið mikið sjokk,“ segir Birna og systur hennar taka undir það.

„Mamma er ofsalega dugleg og sterk og ákveðin í að komast í gegnum þetta,“ segir Eygló og segir þær systur reyna að vera sterkar í gegnum erfiðleikana.

Fjölskyldan er hér samankomin; Bjarney, Birna og Eygló eru hér …
Fjölskyldan er hér samankomin; Bjarney, Birna og Eygló eru hér með föður sínum Ásgeiri og móðurinni Málfríði sem greindist með mergæxli aðeins hálfu ári eftir lát Ásgeirs.

Stelpurnar segjast eiga góða að sem hjálpað hafa þeim mikið í gegnum áföllin.

„Amma okkar og afi í móðurætt, Hildur og Bjarni, hafa hjálpað okkur mikið. Einnig eigum við samfeðra hálfsystur sem heitir Unnur Gréta og er okkur yndisleg systir. Hún á tvo gullmola sem við elskum út af lífinu. Þau búa öll í hverfinu okkar. Afi Bjarni hefur gengið í öll verk sem þurft hefur eftir að pabbi dó og við kunnum svo mikið að meta það. Amma og afi eru alveg einstök.“

Hesturinn Lífeyrissjóður

Systurnar keppa allar í reiðmennsku og eru nýkomnar heim af Landsmóti hestamanna á Hellu. Þær segja það hafa gengið ágætlega og skemmtu þær sér mjög vel.

„Þetta er fyrsta landsmótið þeirra, en það er ótrúlega gaman að komast inn á landsmót og taka þátt,“ segir Eygló og útskýrir að valið sé inn á mótið og þurfa þá knaparnir að vera góðir.

„Það komast ekki allir inn,“ segir hún og nefnir að landsmótið í ár hafi verið fyrsta landsmót yngri systranna. Eygló hefur keppt mikið í mörg ár og hefur hlotið nokkra Reykjavíkurmeistaratitla.

Eigið þið ykkar uppáhaldshesta?

„Já, en það er ekki alltaf sami hesturinn, það er breytilegt,“ segir Eygló.

„Uppáhaldshesturinn minn heitir Saga,“ segir Bjarney.

„Minn heitir Drift,“ segir Birna.

„Minn heitir Lífeyrissjóður,“ segir Eygló og blaðamaður hváir.

Þær skellihlæja.

„Hann hét það þegar við keyptum hann og það er ekki hægt að breyta því. Þetta er skemmtilegt nafn,“ segir Eygló.

„Kannski ég kalli hann bara Sjóð,“ segir hún brosandi og bætir við að hestarnir hafi hjálpað þeim mikið í gegnum erfiða tíma.

„Hestarnir hafa hjálpað okkur að komast í gegnum þetta. Við eyðum svo miklum tíma með hestunum,“ segir Eygló og segir þær fara í hesthúsið á hverjum degi eftir skóla.

Hestar eins og vinir manns

Hvað er svona æðislegt við hesta?

„Dýrin geta verið mjög ólík. Sumir hestar eru mjög klárir og aðrir ekki. Þeir eru eins og vinir manns,“ segir Eygló.

„Það er gaman að hugsa um þá,“ segir Bjarney og bætir við að þær eigi einnig hund og kött heima.

„Við þurfum að moka skít á hverjum degi,“ segir Birna.

„Það er fínt ef maður hefur eitthvað að hlusta á, en það er ekki það skemmtilegasta sem maður gerir,“ segir Eygló og segir þær þurfa að hirða um þá, gefa þeim og bursta feldinn.

Bjarney, Eygló og Birna eru samrýmdar og góðar systur. Þær …
Bjarney, Eygló og Birna eru samrýmdar og góðar systur. Þær eru heppnar að eiga sama áhugamálið, sem er hestamennskan. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Svo tekur alltaf tíma að gera þá klára til að ríða út,“ segir Eygló og segir þær fara mikið á bak.

Birna keppti á sínu fyrsta Landsmóti hestamanna í sumar og …
Birna keppti á sínu fyrsta Landsmóti hestamanna í sumar og stóð sig vel.

Við förum að slá botninn í samtalið og það er ljóst að framtíðin er björt hjá systrunum þremur. Þær eru allar metnaðargjarnar og ætla sér langt, bæði í lífinu sjálfu og sem knapar, enda vita þær fátt betra en að vera á hestbaki. Eygló hefur síðasta orðið:

„Það er svo ótrúlega gaman. Það er svo einstakt að ríða út í náttúrunni og gleyma sér.“

Ítarlegra viðtal við systurnar er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert