Tilkynnt hefur verið um tjón á innanstokksmunum í Grindavík eftir stóran jarðskjálfta á Reykjanesskaga í dag.
Ekki hafa tilkynningar um slys á fólki borist almannavörnum, er kemur fram í tilkynningu.
Enn er óvissustig almannavarna í gildi, sem lýst var yfir um miðjan dag í gær, eftir að yfirstandandi skjálftahrina hófst.
„Íbúar eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni. Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum.