Töluvert álag var á sjúkrahúsinu á Akureyri um helgina, að sögn Sigurðar E. Sigurðssonar, framkvæmdastjóra lækninga á sjúkrahúsinu á Akureyri. „Þessi helgi er alltaf svolítið þung en við komumst í gegnum hana og horfum björtum augum fram á við.“
Óvissustigi var lýst yfir á sjúkrahúsinu í síðustu viku og var það í gildi yfir helgina. Sigurður segir að það verði endurskoðað á morgun. „Hvort við þurfum að vera áfram á óvissustigi er ekki endilega víst. Við viljum ekki grípa til þess nema það sé í raun hætta á að við ráðum ekki við verkefnið.“
Legudeildir eru yfirfullar en aðrar deildir eru að nálgast ákveðið jafnvægi að sögn Sigurðar. Verslunarmannahelgin hefur almennt verið ákveðinn hápunktur, en að henni lokinni fer reyndara starfsfólk að snúa til baka úr sumarfríum sínum, sem léttir aðeins undir.
„Bráðamóttakan byrjaði frekar rólega um helgina. Leikar fóru að æsast eftir því sem á leið, sérstaklega á kvöldin og um nætur. Það var þá helst fólk sem fór hratt um gleðinnar dyr líkt og oft um þessar helgar. Það var mikið að gera en viðráðanlegt.“
Álagið á gjörgæsludeild var innan marka, eða fremur sambærilegt því sem er í venjulegu árferði. Mönnun þar var þó tæp og starfsfólkið lúið þegar það sneri heim af næturvaktinni, að sögn Sigurðar.
Lyf- og skurðlækningardeildir eru yfirfullar. Á lyflækningadeild eru 23 legurými og á skurðlækningadeild eru þau 20. Ferðamenn af skemmtiferðaskipum koma mikið inn á þessar deildir sem skapar viðbótarálag á þessum tíma. „Þetta er mikill fjöldi og þeir veikjast eins og aðrir. Það þarf ekki marga til að bæta á álagið á þessum deildum.“
Sigurður telur júlí hafa verið stærsta mánuð í sjúkraflugi frá upphafi. „Ég er ekki með nákvæma tölu en sjúkraflugin voru komin yfir 112 stykki í mánuðinum. Að meðaltali voru farin fjögur flug á dag. Á föstudaginn fór fluglæknirinn okkar í átta eða níu flug á einum sólarhring.“