Fulltrúar frá Grindavíkurbæ, lögreglunni á Suðurnesjum, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, HS Orku og öðrum viðbragðsaðilum funduðu í dag í kjölfar skjálftahrinunnar á Reykjanesskaga. Á fundinum var farið yfir vöktunarupplýsingar Veðurstofu Íslands og ákvarðanir um viðbúnað og viðbragð voru byggðar á þeim.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.
Segir meðal annars að eitt það mikilvægasta fyrir íbúa á jarðskjálftasvæðum er að gera ráðstafanir sem eykur öryggi fólks og dregur úr mögulegu tjóni. Það sama á að við um alla starfsemi á jarðskjálftasvæði.
„Slíkar ráðstafanir auka einnig öryggistilfinningu fólks sem dregur úr vanlíðan í ástandi sem þessu. Ýmislegt er hægt að gera til að auka öryggi eins og að festa þunga hluti við gólf eða veggi og hafa ekki þunga hluti á veggjum eða ofarlega í hillum,“ segir í tilkynningunni og bent er á að hægt sé að kynna sér varnir og viðbúnað á heimasíðu almannavarna.
„Mörgum finnst jarðskjálftar óþægilegir og í hrinu eins og þessari þarf að takast á við marga óvissuþætti. Því er mikilvægt að gera það sem hægt er til að draga úr vanlíðan, hlúa hvert að öðru og aðstoða þau sem síður eru í stakk búin að takast á við þessar aðstæður. Við minnum á Hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Hjálparsíminn er alltaf opinn, trúnaði og nafnleynd er heitið og hann er ókeypis.“
Í tilkynningunni kemur fram að samkvæmt vöktunarupplýsingum Veðurstofunnar er líklegast að jarðskjálftarnir við Fagradalsfjall séu vegna kvikuinnskots við Fagradalsfjall.
Kvikuinnskotið veldur spennubreytingum vestan og austan við Fagradalsfjall og framkallar þar skjálfta. Þessir skjálftar eru gjarnan kallaðir gikkskjálftar og eru merki um spennulosun en tákna ekki að kvika sé á hreyfingu á þeim svæðum þar sem þeir mælast.
Í upphafi hrinunnar voru skjálftarnir á um 6-8 km dýpi og fóru svo grynnkandi. Skjálftavirknin hefur hins vegar haldist stöðug frá því um eftirmiðdaginn á laugardag og er á um 2-5 km dýpi.
Þar sem óvissustig er nú í gangi vegna skjálftahrinunnar hefur vöktun Veðurstofunnar verið aukin og skipulag almannavarna er í viðbragðsstöðu. Jafnframt verða þau sveitarfélög sem mögulega verða fyrir áhrifum upplýst um leið um stöðu mála ef einhver frávik eiga sér stað sem benda til þess að eldgos sé í vændum.
Þá hefur Veðurstofan einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að forðast brattar hlíðar.
Íbúum og fyrirtækjum er bent á að hafa samband við Náttúruhamfaratryggingu Íslands ef tjón hefur orðið vegna skjálftanna.