Fundað um viðbúnað og viðbragð

Jarðskjálftarnir hafa fundist vel í Grindavík.
Jarðskjálftarnir hafa fundist vel í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Full­trú­ar frá Grinda­vík­ur­bæ, lög­regl­unni á Suður­nesj­um, al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, HS Orku og öðrum viðbragðsaðilum funduðu í dag í kjöl­far skjálfta­hrin­unn­ar á Reykja­nesskaga. Á fund­in­um var farið yfir vökt­unar­upp­lýs­ing­ar Veður­stofu Íslands og ákv­arðanir um viðbúnað og viðbragð voru byggðar á þeim.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá al­manna­vörn­um. 

Seg­ir meðal ann­ars að eitt það mik­il­væg­asta fyr­ir íbúa á jarðskjálfta­svæðum er að gera ráðstaf­an­ir sem eyk­ur ör­yggi fólks og dreg­ur úr mögu­legu tjóni. Það sama á að við um alla starf­semi á jarðskjálfta­svæði.

„Slík­ar ráðstaf­an­ir auka einnig ör­ygg­is­til­finn­ingu fólks sem dreg­ur úr van­líðan í ástandi sem þessu. Ýmis­legt er hægt að gera til að auka ör­yggi eins og að festa þunga hluti við gólf eða veggi og hafa ekki þunga hluti á veggj­um eða of­ar­lega í hill­um,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni og bent er á að hægt sé að kynna sér varn­ir og viðbúnað á heimasíðu al­manna­varna.

Mörg­um finnst jarðskjálft­ar óþægi­leg­ir og í hrinu eins og þess­ari þarf að tak­ast á við marga óvissuþætti. Því er mik­il­vægt að gera það sem hægt er til að draga úr van­líðan, hlúa hvert að öðru og aðstoða þau sem síður eru í stakk búin að tak­ast á við þess­ar aðstæður. Við minn­um á Hjálp­arsím­ann 1717 og net­spjall Rauða kross­ins 1717.is. Hjálp­arsím­inn er alltaf op­inn, trúnaði og nafn­leynd er heitið og hann er ókeyp­is.

Virkn­in hald­ist stöðug frá því á laug­ar­dag

Í til­kynn­ing­unni kem­ur fram að sam­kvæmt vökt­unar­upp­lýs­ing­um Veður­stof­unn­ar er lík­leg­ast að jarðskjálft­arn­ir við Fagra­dals­fjall séu vegna kvikuinn­skots við Fagra­dals­fjall.

Kvikuinn­skotið veld­ur spennu­breyt­ing­um vest­an og aust­an við Fagra­dals­fjall og fram­kall­ar þar skjálfta. Þess­ir skjálft­ar eru gjarn­an kallaðir gikk­skjálft­ar og eru merki um spennu­los­un en tákna ekki að kvika sé á hreyf­ingu á þeim svæðum þar sem þeir mæl­ast.

Í upp­hafi hrin­unn­ar voru skjálft­arn­ir á um 6-8 km dýpi og fóru svo grynnk­andi. Skjálfta­virkn­in hef­ur hins veg­ar hald­ist stöðug frá því um eft­ir­miðdag­inn á laug­ar­dag og er á um 2-5 km dýpi.

Al­manna­varn­ir í viðbrags­stöðu

Þar sem óvissu­stig er nú í gangi vegna skjálfta­hrin­unn­ar hef­ur vökt­un Veður­stof­unn­ar verið auk­in og skipu­lag al­manna­varna er í viðbragðsstöðu. Jafn­framt verða þau sveit­ar­fé­lög sem mögu­lega verða fyr­ir áhrif­um upp­lýst um leið um stöðu mála ef ein­hver frá­vik eiga sér stað sem benda til þess að eld­gos sé í vænd­um.

Þá hef­ur Veður­stof­an einnig vakið at­hygli á því að grjót­hrun og skriður geti farið af stað í bratt­lendi og því er gott að forðast bratt­ar hlíðar.

Íbúum og fyr­ir­tækj­um er bent á að hafa sam­band við Nátt­úru­ham­fara­trygg­ingu Íslands ef tjón hef­ur orðið vegna skjálft­anna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka