Svona virkaði skjálftaviðvörunin

Notendur Samsung Galaxy-síma virðast hafa fengið tilkynninguna.
Notendur Samsung Galaxy-síma virðast hafa fengið tilkynninguna. AFP

Eig­end­ur síma með Android-stýri­kerfi fengu til­kynn­ingu í síma sína um jarðskjálfta, um það bil 5,5 að stærð, aðeins sek­únd­um eft­ir að hann varð í gær og áður en marg­ir fundu fyr­ir hon­um.

Á bloggsíðu Google er útskýrt hvernig skjálftaviðvörunin virkar. Utan Bandaríkjanna styðst stýrikerfið við ákveðna hópnálgun til að greina jarðskjálfta.

Allir snjallsímar með stýrikerfinu innihalda örsmáa mæla sem geta skynjað titring og hraða, merki sem gefa til kynna að jarðskjálfti gæti verið að gerast.

Ef síminn greinir eitthvað sem hann heldur að gæti verið jarðskjálfti sendir hann merki til jarðskjálftaskynjara Android ásamt gróflega áætluðum stað þar sem skjálftinn á sér stað.

Gögn úr tveimur milljörðum síma

Skynjarinn sameinar síðan upplýsingar úr fjölda síma til að komast að því hvort jarðskjálfti eigi sér stað í raun og veru.

Nálgunin notar gögn úr fleiri en tveimur milljörðum Android-síma um allan heim og býr þannig til stærsta jarðskjálftaskynjunarkerfi heimsins.

Símarnir greina titring og hraða jarðskjálfta og gera Android-notendum á viðkomandi svæðum viðvart.

Tilkynning barst 10-20 sekúndum áður

Reiknifræðingurinn Erlendur segir frá því á Twitter að fólk hafi fengið tilkynningu frá Google um skjálfta um það bil 10-20 sekúndum áður en hann reið yfir á Selfossi.

Sigríður Kristjánsdóttir jarðskjálftafræðingur útskýrir þá að það taki bylgjuna sem við finnum í skjálftum á Íslandi um 9-10 sekúndur að ferðast frá Grindavík til Reykjavíkur.

Erlendur bendir þá á að það passi, því eftir 10 sekúndur séu bylgjurnar hálfnaðar til Selfoss og komi þá 10 sekúndum síðar þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert