Áfram gleðidagar þrátt fyrir bakslag

Gatan máluð fyrr í dag.
Gatan máluð fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mjög fjölbreytt og áhugaverð dagskrá framundan. Við erum í fyrsta skipti að draga saman alla fræðslu og umræðuviðburði okkar í Regnbogaráðstefnu sem verður á morgun og á hinn. Við höfum verið með ýmsa svoleiðis viðburði síðustu ár en þeir hafa verið dreifðir yfir dagana en okkur langaði að prufa að gera þeim hærra undir höfðinu með því að setja upp alvöru ráðstefnufyrirkomulag,“ segir Gunnlaugur Bragi Björns­son, formaður Hinseg­in daga, í samtali við mbl.is.

Hinsegin dagar voru settir í dag þegar gleðirendur voru málaðar á Bankastræti. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá fyrir hátíðina með alls kyns fræðslu og skemmtun. Hátíðin nær hápunkti sínum á laugardaginn í Gleðigöngunni sem hefst við Hallgrímskirkju klukkan tvö. 

„Það eru mjög spennandi viðburðir í vikunni. Sigling með Eldingu á föstudagskvöld er vinsæll viðburður og vonandi fáum við gott veður. Á laugardaginn er stóri dagurinn sem verður alltaf dálítið tilfinningaríkur fyrir okkur öll held ég.“

Baráttunni ekki lokið

„Það er kannski aðeins öðruvísi að fara inn í hátíðina núna eftir umræðu síðustu daga þar sem virðist hafa orðið bakslag í baráttunni sem skerpir ennþá betur á mikilvæginu og af hverju við erum að þessu á annað borð,“ segir Gunnlaugur.

Hann segir að baráttufólk fyrir hinsegin málum sé reglulega spurt að því hvort Hinsegin dagar séu ekki orðnir óþarfir.

„Við minnum á það að baráttunni sé ekki lokið og mannréttindi sem hefur þurft að berjast fyrir standa oft svolítið tæpt þegar á móti blæs. Nú sjáum við að það er komið bakslag í baráttunni. Hinsegin ungmenni verða fyrir auknu aðkasti og það setur svolítið annan tón.“

„Við hvetjum öll til að láta sjá sig. Sjaldan hefur verið mikilvægara að koma saman og ræða málin og auðvitað að gleðjast. Hinsegin dagar eru og verða áfram gleðidagar þó að tónninn sé kannski öðruvísi núna.“

„Sjaldan hefur verið mikilvægara að koma saman og ræða málin …
„Sjaldan hefur verið mikilvægara að koma saman og ræða málin og auðvitað að gleðjast,“ segir Gunnlaugur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert