Deildir enn yfirfullar og tæp mönnun á gjörgæslu

Óvissu­stigi var lýst yfir á sjúkra­hús­inu í síðustu viku.
Óvissu­stigi var lýst yfir á sjúkra­hús­inu í síðustu viku. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki verður hægt að færa sjúkrahúsið á Akureyri af óvissustigi fyrr en yfirmenn spítalans geta verið nokkuð vissir um að mönnun sé tryggð og stofnunin geti sinnt hlutverki sínu, að sögn Sigurðar E. Sigurðssonar, fram­kvæmda­stjóra lækn­inga á sjúkra­hús­inu.

Mikið hefur mætt á sjúkrahúsinu yfir helgina, sérstaklega á bráðamóttökunni þar sem töluvert hefur verið af innlögnum. Þá hefur einnig verið mikið um sjúkraflug síðustu daga.

„Við erum enn þá með alveg yfirfullar deildir og tæpa mönnun á gjörgæslunni. Síðan vorum við svo ólánsöm að það bilaði sneiðmyndatæki rétt fyrir helgina sem hefur gengið lengur að gera við heldur en að við vildum,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Skýrist síðar í dag eða á morgun

Meta átti í dag hvort mögulegt yrði að aflétta óvissustiginu á sjúkrahúsinu sem er í gildi en þegar blaðamaður heyrði í Sigurði fyrir skömmu lá það enn ekki fyrir. Taldi hann það eiga eftir að koma í ljós í kvöld eða á morgun.

Helstu lykileiningar sjúkrahússins: Bráðamóttakan, gjörgæslan og stóra legudeildin, voru „smekkfullar“ þegar Sigurður tók stöðuna á þeim í morgun. Að hans sögn er það þó ekki það sem kallar á að spítalinn sé á óvissustigi heldur er það fyrst og fremst mönnunin og tækjabúnaðurinn sem þarf að vera í betra standi.

„Við þurfum að vera nokkuð viss um það að mönnunin sé tryggð og að við getum sinnt hlutverki okkar, til dæmis að sneiðmyndatækið sé í lagi, sem er eitt af aðal tækjunum okkar,“ segir Sigurður og bætir við: „Við höfum áður verið með sneisafullt sjúkrahús án þess að fara á óvissustig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert