Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að Íslendingar verði að vera tilbúnir í að draga úr áhrifum eldgoss á samfélagið. Mögulega geti flætt yfir aðalumferðaræðar Suðurnesja og gjóskufall geti truflað flugumferð. Því telur Þorvaldur að það sé skynsamlegt að byggja annan alþjóðlegan flugvöll hér á landi.
Hann bendir á að þó svo að Keflavíkurflugvöllur sé ekki nálægur neinum líklegum upptökustað á Reykjanesskaga þá sé vitað að möguleiki sé á gjóskugosi annars staðar og jafnvel líka á Reykjanesskaga. Það geti truflað flugumferð í einhverja daga og valdið tekjutapi fyrir ferðamannageirann og þjóðina.
„En alvarlegri staða gæti líka komið upp,“ segir Þorvaldur.
Hann bendir á að í Krýsuvíkureldunum, sem hófust um miðja 12. öld, hafi hraun runnið í sjó í Straumsvík á norðanverðum skaganum, þar sem Keflavíkurvegur liggur nú. Auk þess flæddi til sjávar á Suðurströndinni þar sem Suðurstrandarvegur er nú.
„Þá ertu búin að taka út tvær aðalumferðaræðar upp á Keflavíkurflugvöll og þær umferðaræðar sem öll Suðurnesin nota og þó þú getir flogið til Keflavíkurflugvallar þá kemurðu fólkinu ekki frá vellinum,“ segir Þorvaldur.
„Ég hef bent á þetta mörgum sinnum, en eins og ég hugsa þetta þá erum við komin inn í gostímabil og við erum að horfa á að næstu áratugina, jafnvel næstu árhundruðin, að það verða eldgos á Reykjanesskaga og þau munu hafa einhverjar afleiðingar,“ segir Þorvaldur og bætir við:
„Sumar afleiðingarnar verða frekar litlar, aðrar stærri, en við þurfum að undirbúa okkur fyrir þetta og vera tilbúin í það að draga úr áhrifum þessa eldgosa eins mikið á okkur samfélag og við mögulega getum og tryggja það að að það verði ekki einhverjar meiriháttar truflanir á okkar lífi út af gosum á Reykjanesskaga.“
Þorvaldur bendir á að þó að það muni taka nokkur hundruð ár að búa til risastórt hraun á Reykjanesskaganum þá muni gos valda truflunum og loka þurfi vegum.
„Auðvitað kemur að því að gosið hættir og þá er hægt að setja veginn inn aftur en það getur valdið truflunum í millitíðinni sem getur haft veruleg efnahagsleg áhrif og samfélagsleg áhrif fyrir okkur og það eina sem ég er að segja er að við verðum að hugsa um þetta svo við drögum úr þessum áhrifum og lærum að lifa með þessu sem er bara hluti af okkar landi og náttúru.“
Hann segir að það sé mikilvægt að Íslendingar átti sig á því að nú sé tækifæri til þess að grípa til aðgerða.
„Við fengum væga viðvörun, það er verið að gefa okkur tíma og það er kannski skynsamlegt fyrir okkur að nota þann tíma eins vel og við getum,“ segir hann.