Stórir jarðskjálftar hafa riðið yfir Grindavík undanfarna daga og eldgos í kortunum samkvæmt jarðfræðingum. Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að búið sé að halda marga fundi og gera áætlanir um uppbyggingu varnarmannvirkja á Reykjanesi.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.
Meðal annars þurfi að vernda svæðið í kringum Grindavík og Svartsengi, en þaðan kemur bæði heitt og kalt vatn. Einnig er þar raforkuframleiðsla.
„Vandinn er sá að það er erfitt að leggja af stað með framkvæmdir út í óvissuna, því Reykjanesskaginn er svo víðfeðmur. Eldstöðvakerfið er þannig að menn geta varla byrjað á þessari uppbyggingu. Frekar er verið að reyna undirbúa þessu uppbyggingu ef það kemur að gosi. Það þarf að eiga tækjalista og tengiliðalista við stórverktaka, til þess að geta brugðist skjótt við ef að það þykir tímabært að reisa garðana,“ segir Fannar.
Er það ekki of seint?
„Jú, en það eru ótalmargir möguleikar í stöðunni um það hvert hraunið kann að renna. Ef það ætti að loka fyrir alla þá möguleika, þá er allur skaginn undir. Vísindamenn segja líka að við megum ekki hafa garðana öfugu megin við gosið og hraunrennslið.“
Fannar segir að Vegagerðin telji að einn lítill varnargarður kosti á bilinu 1-1,5 milljarð króna. Ef út í slíkar framkvæmdir yrði farið, og nokkrir varnargarðar reistir, myndu fjárveitingar Vegagerðarinnar klárast fljótt. „Þetta er svipað með sjóvarnargarða og snjóflóðagarða, einhvers staðar eru takmörkin á þessu.“
Inntur eftir því segist hann telja framkvæmdir við varnarmannvirki muni ekki hefjast fyrr en það fari að gjósa. Það sé hins vegar vilji Grindavíkurbæjar að þær hefjist sem fyrst.
Meira í Morgunblaðinu í dag.