Hafa ekki miklar áhyggjur af útbreiðslu um helgina

Embætti sóttvarnalæknis hefur ekki miklar áhyggjur að það verði almenn …
Embætti sóttvarnalæknis hefur ekki miklar áhyggjur að það verði almenn útbreiðsla af apabólu vegna mannamóta yfir verslunarmannahelgina. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson.

Ellefu hafa greinst með apabólu á Íslandi en eitt nýtt smit uppgötvaðist um helgina, að sögn Guðrúnar Aspelund sem sinnir starfi sóttvarnalæknis í fjarveru Þórólfs Guðnasonar.

Hún segir ekki miklar áhyggjur uppi varðandi útbreiðslu apabólu yfir verslunarmannahelgina þó ávallt sé hætta á smiti milli manna í nánum samkomum.

„Apabóla þarf mikla nánd í einhvern tíma, þetta er ekki jafn smitandi og Covid. Þetta er fyrst og fremst snertismit frá þessum útbrotum. Þetta getur líka verið dropasmit. Svo getur apabóla reyndar verið á efni eins og á rúmfötum og handklæðum en það þarf töluvert mikla nánd og mikið samneyti til þess að smitast.“

Enginn alvarlega veikur

Vitað er um að minnsta kosti tvö andlát af völdum apabólu utan Afríku. Þann 22. júlí höfðu fimm lát­ist vegna sjúk­dóms­ins að sögn Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar og voru öll dauðsföll­in inn­an Afr­íku. 

Að sögn Guðrúnar hefur enginn veikst alvarlega af völdum sjúkdómsins hér á landi. Hún segir þó aukna hættu á alvarlegum veikindum samhliða því að tilfellum fer fjölgandi.

Ísland fékk ný­lega 40 skammta af bólu­efni að láni frá Dön­um og þeir hafa all­ir gengið út en þeim sem stend­ur til boða að fá bólu­setn­ingu vegna apa­bólu fá boð um það sér­stak­lega, enda er um tak­markað magn að ræða. Sá hóp­ur er val­inn eft­ir áhættumati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka