Kvika á hreyfingu en bendir ekki til goss

Kvikuhreyfingar í Fagradalsfjalli eiga þátt í skjálftunum.
Kvikuhreyfingar í Fagradalsfjalli eiga þátt í skjálftunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skjálftar sem hafa gert vart við sig á suðvesturhorninu í kvöld eru gikkskjálftar, sem verða vegna spennubreytinga sem kvikuinnskotið við Fagradalsfjall veldur. 

Þetta þarf ekki að benda til þess að gos sé í aðsigi, að sögn náttúruvársérfræðings Veðurstofu.

Skjálftarnir eiga upptök sín vestan við Kleifarvatn og var sá stærsti 4,8 stig að stærð. Þeim svipar til þeirra sem mældust við Grindavík í gær.

„Það eru þessi tvö svæði sem kvikuinnskotið sem nú er í gangi hefur áhrif á,“ segir náttúruvársérfræðingur Veðurstofu í samtali við mbl.is. 

Samspil flekahreyfinga og kvikuinnskots

Jarðskjálftahrina hófst um ellefuleytið í kvöld og hafa sex skjálftar yfir þremur mælst síðan þá, þar af þrír yfir fjórum. Veðurstofan hefur fengið tilkynningar allt frá Stykkishólmi að Hvolsvelli en engin merki um gosóróa mælast.

Tengist þetta flekahreyfingum?

„Á vissan hátt. Það byggist upp spenna vegna flekahreyfinga og síðan breytir kvikuinnskotið spennuástandinu og nær að losa spennu sem var til staðar.

Þetta bendir bara til þess að kvika sé á hreyfingu en ekki endilega að eitthvað sé að fara í gang.“

Áhrifakort fyrir skjálftann kl. 23.31.
Áhrifakort fyrir skjálftann kl. 23.31. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert