Veðurstofan hefur breytt litakóða fyrir Grímsvötn í gulan.
Er þetta gert eftir að nokkrir jarðskjálftar stærri en 1,0 að stærð mældust þar síðdegis í dag.
Stærsti skjálftinn mældist 3,6 að stærð kl. 14.24 og þykir jarðskjálftavirkni umfram eðlilega bakgrunnsvirkni.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að fylgst verði náið með virkninni í Grímsvötnum.
Jökulhlaup varð úr Grímsvötnum seint á síðasta ári og mynduðust sigkatlar yfir eldstöðinni, án þess þó að til eldgoss kæmi.
Þessi virkasta eldstöð Íslands hefur verið komin að því að gjósa í jafnvel tvö ár. Hvort tveggja þrýstingur að ofan, og þensla að neðan, mældust meiri í nóvember síðastliðnum en fyrir síðasta eldgos, árið 2011, sem þó var óvenju öflugt.
Kvikusöfnun í eldstöðinni virtist þegar árið 2020 hafa náð sama marki og fyrir kröftuga eldgosið árið 2011, ef mið er tekið af þenslumælingum í Grímsfjalli. Síðan þá hefur fjallið þanist meira út.
Eldgos í eldstöðinni hafa verið talin geta varað frá nokkrum dögum til sjö mánaða. Síðasta gos, sem var mjög kröftugt, varði í aðeins sjö daga. Það fylgdi ekki jökulhlaupi.