Tómas Arnar Þorláksson
Rafmagni sló út í öllum byggingum álversins í Straumsvík, nema í kerskálanum og steypuskálanum þar sem öll framleiðsla álversins fer fram, í kjölfar jarðskjálftahrinunnar í nótt. Þetta staðfestir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto, í samtali við mbl.is.
„Það duttu út kaffistofur, boðkerfi og annað en það var lítið mál að setja það aftur inn,“ segir Bjarni. Hann ítrekar að ekki hafi verið um neitt alvarlegt að ræða og að þetta hafi ekki haft nein áhrif á rekstur álversins.
„Það er eitthvað högg sem kemur við einhvern af skjálftunum í nótt en eins og ég segi: Þetta er bara rafmagnsleysi á öllu öðru en kerskála og steypuskála,“ segir hann og bætir við að öll framleiðsla álversins fari fram í skálunum.
Spurður hvort einhver hætta sé til staðar fyrir álverið og starfsmenn vegna skjálfta segir Bjarni viðbúnaðarkerfi vera til staðar og að allir starfsmenn séu vel undirbúnir fyrir svona jarðskjálftahrinur.
„Við erum með okkar viðbúnað sem er nokkuð vel þjálfaður síðan í fyrra en það þarf bara að fara mjög varlega,“ segir Bjarni og vísar til tímabilsins þegar jörð nötraði ítrekað á Reykjanesskaganum á síðasta ári áður en að gaus í Fagradalsfjalli í Geldingadölum.
„Þetta gekk allt vel í fyrra og heldur áfram að ganga vel. Þetta var ekki alvarleg bilun og það tókst fljótt að setja þetta inn aftur.“