Níu eftirskjálftar stærri en 3

Jarðskjálftarnir í nótt og í morgun áttu upptök sín á …
Jarðskjálftarnir í nótt og í morgun áttu upptök sín á svæðinu við Kleifarvatn. mbl.is/RAX

Frá því klukkan níu í gærkvöldi hafa rúmlega 1200 skjálftar mælst. Níu skjálftar stærri en þrír hafa mælst frá því sá stærsti var rétt fyrir klukkan hálf þrjú í nótt. Sá síðasti mældist 3,2 klukkan 6.46 í morgun.

Frá þessu segir Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Hún segir að skjálftavirknin sé heldur að róast miðað við það sem var í nótt. 

„Það er ennþá virkni en þetta hefur róast aðeins eftir skjálftann sem kom klukkan hálf þrjú. Það eru ennþá að tikka inn skjálftar en engir eins stórir og klukkan hálf þrjú,“ segir Hulda.

Kvikugangur veldur skjálftum á öðrum stöðum 

„Áður en þetta hófst á Reykjanesi voru við með nokkur hundruð skjálfta á viku. Nú erum við með mörg þúsund skjálfta á viku,“ segir Hulda.

„Skjálftarnir sem eru við Kleifarvatn flokkast sem gikkskjálftar. Kvikugangur við Fagradalsfjall er að breyta spennunni á Reykjanesskaganum og er að framkalla skjálfta á öðrum stöðum.“

Hulda segir að því sé sennilega ekki kvika við Kleifarvatn sem er að valda skjálftunum þar, heldur kvikugangur við Fagradalsfjall.

Frétt uppfærð klukkan 9.04.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert