„Við erum að koma þarna yfir hæðina þegar við förum að finna rosalega mikla lykt og vorum svolítið að furða okkur á því, en þegar við erum komnir yfir hæðina sjáum við þennan hvíta reyk alveg töluvert langt í burtu,“ segir Þröstur Magnússon í samtali við mbl.is.
Þröstur var á göngu um gosstöðvarnar við Fagradalsfjall ásamt félaga sínum um sjöleytið í kvöld og náði myndum af reyknum á svæðinu, sem sést hefur á vefmyndavélum mbl.is.
„Við röltum síðan þar sem gosið var í upphafi, að fyrsta gígnum, en svo sjáum við að reykurinn er eiginlega fyrir aftan okkur, þannig að við förum aðeins upp á hæðina og sjáum að það rýkur úr allri jörðinni þarna,“ segir hann.
„Við fórum svona eins og við þorðum að þessu og smelltum af myndum, en okkur fannst þetta frekar óvenjulegur staður, þetta er svo langt frá þar sem gosið var.“
Þröstur segist hafa orðið var við ferðamenn á svæðinu og svolítinn umgang fólks.
„Við vorum alveg að mæta fólki sem var að koma og fara og nokkrir bílar voru á planinu, þannig að við vorum ekkert aleinir þarna, greinilega einhver áhugi ennþá að kíkja á svæðið,“ segir hann.
„Það er alltaf jafn magnað að koma þarna, en við áttum kannski ekki von á að sjá einhvern reyk.“
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, segir í samtali við mbl.is að fólk þurfi að vera vel vakandi þegar það fer um svæðið, vegna jarðskjálfta og grjóthruns.
„Það hafa verið mjög snarpir jarðskjálftar og menn eru að finna það þarna vel. Fólk verður bara að fara varlega og vera meðvitað um ástandið.“
Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að reykurinn væri merki um að kvika væri nálægt yfirborði.
Verulegar líkur eru taldar á eldgosi á Reykjanesskaga á næstu dögum eða vikum, en kvika er talin flæða inn nær tvöfalt hraðar en fyrir eldgosið í mars á síðasta ári.
Talið er að kvikugangurinn sé aðeins um kílómetra undir yfirborðinu þar sem grynnst er á hann.
Vefmyndavélar mbl.is vakta svæðið áfram: