Úthlutun á bóluefninu fer eftir áhættumati

Guðrún Aspelund tekur við starfi sóttvarnalæknis 1. september en um …
Guðrún Aspelund tekur við starfi sóttvarnalæknis 1. september en um þessar mundir er hún starfandi sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeim sem stendur til boða að fá bólusetningu vegna apabólu fá boð um það sérstaklega, enda er um takmarkað magn að ræða. Sá hópur er valinn eftir áhættumati. 

Ísland fékk nýlega 40 skammta af bóluefni að láni frá Dönum og þeir hafa allir gengið út, að sögn Guðrúnar Aspelund, sem sinnir starfi sóttvarnalæknis í fjarveru Þórólfs Guðnasonar. 

„Í raun ekki neinir útsettir“

Ákvörðun um það hverjum stendur til boða að þiggja bólusetningu við apabólu, fer eftir tveimur nálgunum. 

„Annars vegar að bólusetja eftir útsetningu. Þannig að þeir sem hafa verið með einhverjum sem greinist svo með apabólu, fái boð um að þiggja bólusetningu,“ segir Guðrún og bætir við að bóluefnið sé þannig að það virki líka eftir að einstaklingur hefur orðið útsettur. 

„Flest smitin hafa komið erlendis frá svo það eru í raun ekki neinir útsettir.“

Bólusetja í forvarnarskyni

Því hefur Ísland stuðst meira við því að bólusetja í forvarnarskyni, sem er hin nálgunin. 

Sá hópur sem var valinn til þess að fá fyrstu skammtana samanstendur af einstaklingum sem eru í HIV lyfjameðferð í forvarnarskyni og áhættumat réði forgangsröðun innan þess hóps fyrir fyrstu skammtana. 

Þá voru einnig framlínustarfsmenn á göngudeildum sem þykja líklegastir til þess að taka á móti einstaklingum með apabólu bólusettir. Að sögn Guðrúnar voru það ekki nema um 10 manns. 

Fljótlega á Ísland von á tæplega 1.400 skömmtum til viðbótar og þá verður áfram stuðst við bólusetningar í forvarnarskyni.

HIV-smitaðir og aðrir í áhættu að mati spítalans

Bólusetning mun standa til boða fyrir þá einstaklinga sem glíma við HIV-sjúkdóminn. Spurð hvort bólusetningin standi öllum HIV smituðum til boða óháð kyni, segir Guðrún að það kunni að vera einhver forgangsröðun innan hópa, en á þó ekki von á öðru en að það verði nægt bóluefni til svo það þurfi ekki að beita slíkri röðun.

Annað áhættumat mun svo fara fram og varðar hóp sem Landspítalinn er í samskiptum við í gegnum göngudeildir smitsjúkdóma og húð og kyn. 

„Spítalinn sér um þetta, en hann er í tengslum við fólkið og sér því um að boða þennan hóp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert