Geðlæknirinn Anna María Jónsdóttir telur að efla megi geðheilbrigði fólks með forvarnarstarfi. Nálgast megi geðheilbrigði úr fleiri áttum en hingað til hefur verið gert.
Anna María hefur vakið athygli á því hversu mikilvæg fyrstu ár ævinnar eru og nú sé kominn tími til að bregðast við niðurstöðum rannsókna síðustu áratuga. „Það sem mér finnst áhugaverðast, af því sem er að gerast í geðlæknisfræðinni um þessar mundir, eru rannsóknir á síðustu tuttugu til þrjátíu árum sem sýna hvernig geðraskanir á fullorðinsárum byrja að þróast í barnæsku.
Þetta höfum við vitað lengi en núna eru að koma fram rannsóknir sem sýna okkur á skýrari hátt hvernig þetta getur gerst. Við sjáum það sem getur raskað taugaþroska einstaklinga, þannig að þeir verða viðkvæmari fyrir álagi, streitu og áföllum síðar á ævinni. Við sjáum einnig rannsóknir sem sýna hvernig hægt er að minnka skaðann og vonandi fyrirbyggja þessa þróun. Forvarnir eru lykillinn en hingað til höfum við hugsað um forvarnir á unglingsárum og höfum gert heilmikið í því. En þessar rannsóknir sýna okkur að forvarnir þyrftu í raun að byrja strax á meðgöngu,“ segir Anna María þegar Sunnudagsblaðið óskar eftir því að fá innsýn í þessa þróun.
Á meðgöngu og í frumbernsku er mikilvægt mótunarskeið fyrir heilann, að sögn Önnu Maríu.
„Á meðgöngu má segja að heilinn sé á mikilvægasta mótunarskeiði lífsins og mjög mikilvægir hlutir gerast á meðgöngunni í sambandi við taugaþroska. Svipað má segja um fyrstu mánuðina og árin eftir fæðingu. Við höfum ekki haft þessa þekkingu fyrr en nýlega. Síðustu tuttugu til þrjátíu árin hefur þekking á þessu farið vaxandi og nú er kominn tími til að bregðast við. Við þurfum að láta þessa þekkingu hafa áhrif á það hvernig við eflum geðheilbrigði fólks.“
Anna María veltir fyrir sér hvort ekki megi beita öðrum aðferðum en gert er, nú þegar skilningurinn hefur aukist.
„Okkar hefðbundna læknisfræðilíkan snýst mest um að greina einkenni hjá fólki og flokka í ákveðnar raskanir. Meðferðin beinist svo að því að laga einkennin. Þegar þunglyndiseinkenni eru meðhöndluð, er aðallega stuðst við lyf og hugræna atferlismeðferð. Sama má segja um kvíðaeinkenni, áráttu og þráhyggju eða ADHD-einkenni. Að flokka einkenni í mismunandi sjúkdóma hefur verið gagnlegt í rannsóknarskyni og í sambandi við meðferð. Flokkunin hefur þó skilað takmörkuðum árangri í að fyrirbyggja veikindi. Skilningur á fyrirbærunum hefur aukist mjög mikið, Komið hefur fram að tveir lykilþættir í öllum þessum röskunum eru eiginleikar sem verða til snemma á ævinni.
Annars vegar er það hæfileikinn til að tempra tilfinningasveiflur eða hvernig okkur gengur að róa taugakerfið þegar við erum í uppnámi. Hins vegar er það stýrifærni, sem er hæfileikinn til að einbeita sér, forgangsraða hlutum, skipuleggja sig, fara eftir skipulagi og ljúka hlutum. Þarna kemur einnig inn í hvatvísi og ofvirkni. Þessir þættir eru í raun og veru grunnstoðir í geðheilbrigði og seiglu einstaklings. Stofnun hjá Harvard, sem heitir Center for the Developing Child, hefur gefið út efnismiklar leiðbeiningar í sambandi við taugaþroska barna og fyrstu árin. Samkvæmt þeim eru þetta tveir lykilþættir í geðheilsu og jafnframt það sem fer úrskeiðis í flestum geðröskunum en hefur mismunandi birtingarmyndir.“
Viðtalið við Önnu Maríu í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins