Tveir jarðskjálftar mældust 3,1 og 3,6 að stærð við Kleifarvatn rétt fyrir klukkan sex í kvöld. Skjálftarnir urðu um 3,7 kílómetra vestur af Kleifarvatni.
Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að búast megi við áframhaldandi skjálftavirkni í kjölfar eldgossins til að byrja með.
„Það sem gerðist í síðasta gosi var að það fór að hægja á skjálftavirkninni eftir því sem leið á gosið, þannig að það má búast við að slíkt hið sama gerist, en eins og er þá eru að koma skjálftar á mínútu fresti, jafnvel nokkrir á mínútu,“ bætir hún við.
„Miðað við fyrri reynslu fór að draga aðeins úr skjálftum þegar gosið hófst.“