„Við komum hérna upp eftir á milli klukkan átta og níu í kvöld sennilega. Við hittum á leiðinni tvo björgunarsveitarmenn úr Grindavík, sem voru nýbúnir að kíkja á þetta. Þeir sögðu okkur að þetta væri einfaldlega sinubruni,“ segir Arnar Ingi Richardsson, sem fór við annan mann upp á Fagradalsfjall í kvöld til að kanna hvað væri þar á seyði.
Þá hafði mbl.is greint frá reyk sem steig upp frá jörðu skammt vestur af hrauninu sem fyllir Geldingadali.
„Manni fannst það einhvern veginn ólíklegt, að þetta væri sinubruni. En svo gengum við að þessu og þetta er bara það.“
Félagarnir héldu þá áfram göngunni.
„Svo við fórum bara upp á Fagradalsfjall og á leiðinni niður sáum við að Ríkisútvarpið var að segja að viðbragðsáætlun almannavarna hefði verið virkjuð,“ segir Arnar Ingi.
Svo reyndist ekki vera, eins og mbl.is greindi frá síðar. En þeir athuguðu brunann þó aftur.
„Svo kom þyrlan og þeir hafa örugglega verið að spá hvað við værum að gera hér. En það eru að minnsta kosti engin merki um neitt annað en sinubruna hér,“ segir hann í samtali við mbl.is á leið frá vettvangi.
Aðspurður kveðst hann ekki hafa gáð hvort jörðin í kring væri sérstaklega heit. Mosinn í grennd sé þó þurr og því geti meiri gróður orðið eldinum að bráð.