Eldgosið sem hófst í Meradölum í dag er fimm til tíu sinnum stærra en eldgosið í Geldingadölum í fyrra. Sprungan sem opnaðist er um þrjú hundruð metra löng og um 20 til 50 rúmmetrar af kviku spýjast út á hverri sekúndu.
Þetta er mat Magnúsar Tuma Guðmundssonar prófessors í jarðeðlisfræði hjá Háskóla Íslands, en hann fór yfir stöðu mála á upplýsingafundi almannavarna sem lauk fyrir skömmu.
Hann sagði eldgosið þó ekki stórt og enga innviði vera í hættu eins og er. Gosstöðvarnar séu fjær byggð og vegum en eldgosið í fyrra en engu að síður þurfi að fara varlega.
Ómögulegt sé að spá með mikilli nákvæmni um þróun gossins næstu daga en við megum þó búast við að jarðskjálftahrinan lognist út af. Þá kvaðst hann einnig telja ólíklegt að það fari að gjósa á öðrum stöðum á meðan þessu stendur.
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði meira gas fylgja eldgosinu í ár samanborið við gosið í fyrra. Skýrist það af því að mun meiri kvika kemur nú upp. Mikilvægt sé að fólk fari ekki ofan í dældina og dalinn þegar það heimsækir gosið, heldur haldi sig uppi á hnjúkunum í kring.
Ekki er hætta á gasmengun í byggð að svo stöddu þar sem strókurinn leggur til suðurs en vindáttin mun þó breytast um helgina. Mælum verður komið upp á svæðinu svo hægt verði að fylgjast nánar með loftgæðum við gosstöðvarnar.
Þá sagði hún eldgosið ekki koma til með að hafa áhrif á alþjóða- eða innanlandsflug þar sem engin aska kæmi frá gosstöðvunum.