Hættan er að hraun fari yfir Suðurstrandarveg

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldgos er hafið í Meradölum við Fagradalsfjall. „Þetta þurfti ekkert endilega að koma á óvart miðað við fréttir gærdagsins og skoðun vísindamanna á því hvar kvikan væri staðsett. En það var styttra í það en menn bjuggust við í gær,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann að betra hefði verið ef gosið væri norðar en erfitt sé að leggja heildarmat á eldgos. Helsta hættan er að hraun færi yfir Suðurstrandarveg líkt og óttast var á síðasta ári í fyrra gosi.

„Þetta er hins vegar fjarri byggð og síðasta gos var meinlaust.“

Að sögn Fannars verður ekki gripið til aðgerða strax. „Það er bara spurning um að kalla saman teymi og vinna sig úr þessu eftir þeim áætlunum sem fyrir liggja. Við erum reynslunni ríkari eftir gosið í fyrra.“

Fannar segir að nú þegar gos er hafið þá finnist mörgum það betra en linnulausir jarðskjálftar.

„Þó að þetta sé ekkert lamb að leika sér við, það er að segja eldgos, þá finnst mörgum það bara vera góð skipti.“

Frá gosinu í fyrra.
Frá gosinu í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert