Fundað verður í kvöld um hvernig gæslu verði háttað við gosstöðvarnar í Meradölum, en nú eru lögreglu- og björgunarsveitarmenn á svæðinu. Þá hafa verið höfð afskipti af fólki með ung börn á svæðinu í dag en ekki er ráðlagt að taka börn með á svæðið vegna gasmengunar.
Þetta kom fram í samtali Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns almannavarna, við mbl.is að loknum blaðamannafundi í dag.
Varað hefur verið við því að gangan að gosstöðvunum sé löng og ekki nema fyrir vana göngugarpa. Almannavarnir sendu öllum sem voru á svæðinu í dag sms-skilaboð með upplýsingum um gossvæðið. Alls bárust skilaboðin til 8.000 símanúmera, þar af 4.000 til erlendra símanúmera.
„Þeir sem koma inn á svæðið fá upplýsingar í sms-skilaboðum á íslensku og ensku. Við erum núna með lögreglu- og björgunarsveitarmenn á svæðinu sem tala við alla sem fara af stað. Það er búin að vera mikil umferð erlendra ferðamanna að hrauninu en margir sem komu þarna í dag ætluðu bara að fara að hrauninu en ekkert lengra, það er svo sem allt í lagi. Við höfum áhyggjur af fólkinu sem ætlar að fara alla leið inn að gosstöðvunum. Þetta er löng ganga, töluverð hækkun og erfitt svæði,“ segir Víðir.
Þá segir hann að í dag hafi verið höfð afskipti af fólki sem ætlaði að ganga að gosstöðvunum með ung börn, en það er ekki ráðlagt vegna gasmengunar.
„Þetta er ekki svæði til að fara með börn á, sérstaklega ekki ung börn.“
Sömuleiðis er ekki ráðlagt að fara með gæludýr að svæðinu.
Þegar gaus síðast á svæðinu stóðu björgunarsveitir vaktina. Að mati almannavarna er ekki hægt að reiða sig á þeirra aðstoð núna.
„Það er bráða-bráðabirgðalausn að fá björgunarsveitir í þessa gæslu en þeir brugðust vel við þegar við báðum þá um aðstoð í dag. Þeir eru búnir að manna vel þarna í kvöld og nótt,“ segir Víðir og bætir við:
„Í kvöld verður fundur þar sem tekin verður ákvörðun um hvernig framhaldið verður. Það er ekki að okkar mati hægt að gera ráð fyrir því að björgunarsveitir standi þarna vaktina eins og gert var í síðasta gosi. Stjórnvöld þurfa að taka það meira á sig. Við erum að sjálfsögðu þó að skoða það en þetta er að hluta til á okkar ábyrgð.“
Í síðasta gosi opnuðust nýjar sprungur sem gerðu ekki boð á undan sér.
Á blaðamannafundinum í dag kom fram að ólíklegt væri að gjósa færi á öðrum stað en ekki er útilokað að það fari að gjósa á sama gangi. Að sögn Víðis munu almannavarnir teikna upp svipað hættukort og síðast.
„Reynslan frá því síðast sýnir okkur að það geti opnast nýjar sprungur og myndast nýir gígar mjög hratt á þessu svæði. Þó að þetta hafi verið tiltölulega stöðugt í dag þá vitum við ekkert hvernig þetta verður á morgun.“