Kvikuflæði tvöfalt meira

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir gosið …
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir gosið máttlítið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvikuflæði eldgossins við Fagradalsfjall nú er um 20 rúmmetrar á sekúndu, sem er tvöfalt meira en í eldgosinu í vestanverðum Geldingadölum vorið 2021, sé miðað við að hraunflæði þá hafi verið um 10 rúmmetrar á sekúndu.

„Ef við horfum almennt á gos þá er það ekki stór breyting,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

Kvika teygir sig nú um tíu metra upp í loftið. „Það myndaðist sannfærandi veggur kvikustróka á fimmhundruð metra langri sprungu,“ segir hann.

Hraunið þyrfti að fylla Meradali áður en innviðir lenda í hættu en það gæti tekið nokkrar vikur eða mánuði. Flugumferð er sömuleiðis ekki í hættu enn sem komið er.

Búinn að vekja athygli á gostímabili sem sé að hefjast

Þetta kom dálítið upp úr þurru. Mældist einhver gosórói?

„Menn sáu ekki óróa á mælunum. Þetta hefur bara komið svona rólega, laumað sér upp án titrings. Það getur vel verið að hann komi síðar í ljós en hann hefur verið lítill.

„Þetta virðist hafa komið frekar rólega upp og dreifist yfir langa sprungu,“ segir hann. Hún sé róleg í augnablikinu og myndi ekki mikinn titring.

„Við erum að fara inn í gostímabil,“ segir Þorvaldur og bætir við að atburðir sem þessir séu eitthvað sem landsmenn ættu að fara að venjast. „Við munum fá svona atburði frekar oft,“ segir hann og þá sé ekki sjálfgefið að staðsetningin verði alltaf þægileg.

„Það er ekki sjálfgefið að þeir verði afmarkaðir við einhverja lokaða dali í Fagradalsfjalli.“

Þorvaldur bendir á að eldgos gæti orðið annars staðar á Reykjanesskaganum. „Það gætu orðið öflugri gos sem búa til stærri hraun og lengri hraun. Ef það gerist þá getum við fengið gos sem sendir hraun í átt til sjávar norðanmegin á skaganum og jafnvel á sama tíma gos sem sendir hraun til sjávar á sunnanverðum skaganum,“ segir Þorvaldur. Gerist það sé búið að loka fyrir báðar aðgangsleiðirnar að Suðurnesjum.

Hann telur að hugsa þyrfti út í innviðina í þessu samhengi og að staðsetning Keflavíkurflugvallar sé óheppileg að þessu leyti.

Stigsmunur á þessu gosi og því fyrra

Stigsmunur er á gosinu nú og gosinu í Fagradalsfjalli árið 2021 en Þorvaldur telur þau tiltölulega lík. 

„Hvort tveggja eru hraungos og hvort tveggja byrjuðu á sprungum. Það er hins vegar hugsanlega smá munur á sprungumynstrinu og því hvernig þessar sprungur mynduðust,“ segir hann. Bæði eru svipuð hvað gas- og hraunamyndun varðar.

Staðsetning gossins. Nú gýs í norðanverðum Geldingadölum.
Staðsetning gossins. Nú gýs í norðanverðum Geldingadölum. Kort/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert